Framhöfuðstaða

25.01.2008

Sæl!

Mig langar til að spyrja þig sambandi við börn sem eru í framhöfuðstöðu. Er algengt að þau snúi sér í fæðingunni sjálf eða er algengara að það endi með bráðakeisara eða töngum og læti. Ég sló nefnilega orðinu  framhöfuðstaða upp á Barnalandi, og næstum hver einasta kona sem hafði lent i þessu hafði ekki góða sögu að segja. Er barn sem er kannski yfir 16 merkur að snúa sér eða bara þau litlu? Hef smá áhyggjur af  þessu  því minn sýr með höfuðuð upp og ég veit að hann verður ekki lítið barn frekar en fyrri börnin mín.

Kær kveðja og takk fyrir góðan vef.


Sæl og blessuð!

Þú átt væntanlega við að barnið snúi með andlitið upp, þ.e að hann horfi fram en ekki aftur eins og algengara er.

Það er mun algengara að þau snúi sér í fæðingunni en að það þurfi að nota áhöld eða gera keisaraskurð. Það er talið að um tvö af hverjum þremur börnum í framhöfuðstöðu snúi sér í fæðingunni og fæðist svo í hvirfilstöðu. En eitt af hverjum þremur nær hins vegar ekki að snúa sér í hvirfilstöðu. Sum fæðast svo bara þannig án allrar aðstoðar en einstaka sinnum þarf að nota áhöld s.s. tangir til að hjálpa þeim við snúninginn og svo er alltaf ein og ein kona sem þarf að fara í keisara út af þessu. Stóru börnin geta allt eins snúið sér og þau litlu.

Það kemur ekki á óvart að konur með barn í framhöfuðstöðu hafi ekki eins góða sögu að segja því það er þekkt að þessar fæðingar eru oft lengri og erfiðari. Það er yfirleitt af hinu góða að kona sé dugleg að hreyfa sig og breyta um stellingar í fæðingunni en það er alveg sérstaklega mikilvægt þegar barnið er í þessari stöðu því það skiptir svo miklu máli að barnið nái að snúa sér. Það hefur oft reynst vel fyrir konur að vera á fjórum fótum í einhvern tíma því það er eins og það hjálpi til við snúninginn. Það getur líka hjálpað mikið að vera ofan í vatni því þá er auðveldara að hreyfa sig og breyta um stellingar.

Vona að allt gangi vel hjá þér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. janúar 2008.