Spurt og svarað

03. september 2005

Fylgjuát

Langar að forvitnast aðeins. Ég hef verið að skoða nokkrar erlendar vefsíður um meðgöngu og fæðingu og þar hef ég rekist á umræður um fylgjuát. Þ.e.a.s. að konur geymi fylgjuna eftir fæðingu og matreiði hana á margskonar hátt til næringar! Er eitthvað um það á Íslandi? Er maður spurður að því við fæðingu hvort maður vilji eiga fylgjuna? Á síðunni er talað um að það komi í veg fyrir að maður verði blóðlítill, maður fái aukna orku og næringu og sitt hvað fleira.

Mjög fróðlegt.

.........................................................................................

Sæl og takk fyrir að senda okkur línu!

Fólki er venjulega ekki boðið að eiga fylgjuna en það er sjálfsagt að fólk fái fylgjuna ef það óskar eftir því. Fylgjan er mjög merkilegt líffæri sem er búin að þjóna sínum tilgangi þegar hún fæðist. Sums staðar í heiminum er reyndar sú trú að það eigi ekki að skilja á milli barns og fylgju og því er fylgjan látin fylgja barninu þar til naflastrengurinn dettur sjálfkrafa af. Sumir taka fylgjuna með sér heim til að grafa hana úti í garði og ég man eftir að hafa látið fólk hafa fylgjuna með sér heim í þeim tilgangi. Ég hef heyrt af fólki sem matreiðir og borðar fylgjuna en man ekki hvort það voru Íslendingar. Ég get alveg trúað því að það sé hollt að borða fylgjuna þó það sé mjög óvenjulegt.

Ef þú hefur áhuga á að fá að eiga fylgjuna þá er bara að láta ósk sína í ljós.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. september 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.