Glær útferð

22.02.2005

Hæ hæ,

Mig langar til að spyrja um útferð sem ég er með.  Ég eignaðist mitt fyrsta barn fyrir þremur mánuðum og er eingöngu með það á brjósti og allt gengur bara vel. Ég var klippt en það var vel gengið frá því og ég er búin að fara í eftirskoðun og allt virtist vera í lagi.  Núna verð ég hinsvegar að vera með dömubindi því það bara lekur slím-sem er hreint- oft á dag og í frekar miklu magni.  Ég hef alltaf heyrt um að þurrkur sé algengur hjá konum eftir fæðingu- sérstaklega fyrstu 3 mánuðina.

Hvað er þetta og hvað á ég að gera.

                                   .....................................................

Sæl vertu og takk fyrir fyrirspurnina
Best að ég viðurkenni strax að ég veit ekki hvernig getur staðið á þessari aukningu á slímmyndun hjá þér, kannski ertu pínulítið heppin í óheppninni því eins og þú réttilega bendir á þá getur þurrkur í slímhúð kynfæranna verið til vandræða meðan konur hafa börn á brjósti - ekki síst í kynlífinu.
Ég tel skynsamlegast fyrir þig ef þú hefur áhyggjur af þessu að hafa samband við kvensjúkdómalækni og bera þetta undir hann, e.t.v. vill hann fá að taka sýni til að útiloka e.k. sýkingu.

Með bestu kveðjum og gangi þér áfram vel,

Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, 21. febrúar, 2005.

P.S.  Gaman að heyra að barnið þitt er eingöngu á brjósti, allt of algengt er að börn séu farin að fá þurrmjólkurábót eða jafnvel aðra fæðu á þessum tíma, haltu áfram á sömu braut!