Spurt og svarað

27. júlí 2005

Grátköst og kvíði

Ég á rúmlega 5 mánaða dóttur og hef verið frekar grátgjörn síðan hún fæddist. Var það á meðgöngunni en þá var sagt að það væri eðlilegt  þar sem hormónarnir væru á fullu, en núna 5 mánuðum eftir fæðingu fæ ég enn grátköst og þá bara ef litla stelpan grætur mikið. Hún fékk alltaf í magann og grét mjög sárt og ég bara ræð ekki við mig og enda oft á því að gráta líka með henni. Og svo núna er hún að taka tennur og grætur mikið af því og það er sama sagan með mig. Svo fæ ég hnút í magann stundum af kvíða, kvíði því að hún vakni og kannski fari að gráta aftur. Það er ekkert sem ég get gert til að hjálpa barninu, nema að halda á því. Er þetta eðlilegt að ég skuli vera svona grátgjörn þetta löngu eftir fæðingu?

..................................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er leiðinlegt að heyra að þér skuli líða svona illa og ég vona svo að þú farir að finna fyrir betri líðan sem fyrst. Það er engin einhlít skýring á því, hvers vegna andleg vanlíðan kemur fram á þeim tíma sem venjulega tengist gleði og hamingju. Ýmsir telja að hormónabreytingar hafi þar áhrif ásamt sálrænum og félagslegum þáttum. Fæðingarþunglyndi kemur fram hjá um 14% kvenna eftir fæðingu. Það getur komið fram á ólíkan hátt hjá konum. Það getur komið fram á fyrstu mánuðum eftir barnsburð og getur varað í marga mánuði. Ef þú heldur áfram að vera kvíðin og líðanin batnar ekki þá skaltu endilega tala um þetta við hjúkrunarfræðinginn sem sinnir þér og barninu þínu í
ungbarnaverndinni eða þá við heimilislækninn þinn.

Með von um betri líðan sem allra fyrst,

Halla Huld Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.