Spurt og svarað

20. desember 2005

Grindarverkir eftir fæðingu

Komið þið sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég eignaðist son fyrir mánuði síðan. Var slæm í grindinni á meðgöngunni frá u.þ.b 20. viku og er núna að velta fyrir mér hversu lengi ég má gera ráð fyrir að finna til. Ég er mikið betri en á meðgöngunni en samt alls ekki orðin góð. Mér finnst grindin öll vera laus og ég þoli illa að fara í gönguferðir eða reyna á annan hátt á. Mælið þið með einhverjum æfingum eða á ég bara að reyna að hlífa mér?

Bestu kveðjur, Vala.

.....................................................................................................

Sæl og blessuð Vala!

Mig langar til að byrja á því að óska þér innilega til hamingju með soninn! Þar sem það er einungis mánuður síðan þú eignaðist hann er alveg eðlilegt að þú finnir ennþá fyrir svolitlum óþægindum í grindinni ef þú hefur verið slæm á meðgöngunni. Óþægindin ættu þó að fara smá minnkandi og vonandi vera alveg horfin eftir 3 mánuði. Þú ættir að hlusta á líkama þinn og fara varlega í sakirnar ef þú finnur til.
Ég mæli með því að þú gerir grindarbotnsæfingar og styrkir kviðvöðvana, en ef þessir vöðvar eru vel þjálfaðir þá minnkar álagið á mjóbakið og grindina sem hjálpar mikið til og flýtir fyrir að þú jafnir þig.  Einnig er brjóstagjöfin mikilvægur þáttur í því að þú jafnir þig eftir fæðinguna, þannig að ef þú ert með drenginn á brjósti, haltu því þá áfram sem mest og sem lengst!

Gangi ykkur vel og gleðileg jól,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
19. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.