Grindarverkir eftir fæðingu

20.12.2005

Komið þið sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég eignaðist son fyrir mánuði síðan. Var slæm í grindinni á meðgöngunni frá u.þ.b 20. viku og er núna að velta fyrir mér hversu lengi ég má gera ráð fyrir að finna til. Ég er mikið betri en á meðgöngunni en samt alls ekki orðin góð. Mér finnst grindin öll vera laus og ég þoli illa að fara í gönguferðir eða reyna á annan hátt á. Mælið þið með einhverjum æfingum eða á ég bara að reyna að hlífa mér?

Bestu kveðjur, Vala.

.....................................................................................................

Sæl og blessuð Vala!

Mig langar til að byrja á því að óska þér innilega til hamingju með soninn! Þar sem það er einungis mánuður síðan þú eignaðist hann er alveg eðlilegt að þú finnir ennþá fyrir svolitlum óþægindum í grindinni ef þú hefur verið slæm á meðgöngunni. Óþægindin ættu þó að fara smá minnkandi og vonandi vera alveg horfin eftir 3 mánuði. Þú ættir að hlusta á líkama þinn og fara varlega í sakirnar ef þú finnur til.
Ég mæli með því að þú gerir grindarbotnsæfingar og styrkir kviðvöðvana, en ef þessir vöðvar eru vel þjálfaðir þá minnkar álagið á mjóbakið og grindina sem hjálpar mikið til og flýtir fyrir að þú jafnir þig.  Einnig er brjóstagjöfin mikilvægur þáttur í því að þú jafnir þig eftir fæðinguna, þannig að ef þú ert með drenginn á brjósti, haltu því þá áfram sem mest og sem lengst!

Gangi ykkur vel og gleðileg jól,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
19. desember 2005.