Gyllinæð og endaþarmssig

04.05.2015

Sælar og takk fyrir frábæran vef. Ég eignaðist mitt annað barn fyrir fjórum vikum síðan og hef átt við tvö afar leiðinleg vandamál að stríða síðan þá. Ég veit ekki hvort þetta tengist eitthvað en annað vandamálið er gyllinæð og hitt er að ég held svokallað endaþarmssig það er að segja að hægðirnar virðast ekki alltaf rata sína leið og þá kemur útbungun inn í leggöng. Ég hef reynt að halda hægðum linum en mér finnst þetta ekkert vera að lagast. Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af strax eða getur þetta lagast með tímanum? Ef svo er hvenær get ég búist við að þetta lagist og get ég eitthvað gert til þess að flýta fyrir bata?


 
Sæl og blessuð og til hamingju með barnið. Þetta er nokkuð algengt vandamál og gengur  oftast að hluta eða öllu leyti  til baka á nokkrum vikum. Það sem þú getur gert er að vera dugleg að gera grindarbotnsæfingar fyrir endaþarmssigið, einnig getur þú reynt stíla og krem við gyllinæðinni. Þú gerir alveg rétt með því að halda hægðum mjúkum. Það styrkir líka grindarbotninn að fara út að ganga og ég mundi ráðleggja þér það ásamt grindarbotnsæfingunum. Ég ráðlegg þér að fara í eftirskoðun í kringum eða uppúr sex vikum eftir fæðinguna og þar  skaltu ræða þetta. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug V. ljósmóðir