Spurt og svarað

28. ágúst 2004

Hægðatregða eftir fæðingu

Hæ, hæ.

Ég fæddi barn í byrjun júní og fékk 4° rifu við fæðinguna. Var ráðlagt að taka inn Sorbítol og gerði það og geri enn. Málið er að ég hef hætt, en þá fengið mikla hægðartregðu. Getur það haft slæm áhrif á líkaman, þ.e. hringvöðvana að taka inn Sorbítól svona lengi. Ef ég hætti að taka það hvað get þá gert við hægðartregðu (borða All Bran, hreyfi mig reglulega og drekk mikið vatn!)

Fyrirfram þakkir fyrir svarið.

................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Konum er yfirleitt ráðlagt að taka Sorbitol í 1-2 vikur eftir fæðingu ef þær hafa fengið 3-4° rifu til að halda hægðunum mjúkum.  Nú er það langt um liðið að þú ættir ekki að þurfa á því að halda.  Ég veit ekki til þess að Sorbitol hafi slæm áhrif á líkamann ef það er tekið í langan tíma en ef þú þarft á því að halda áfram ættir þú að ráðfæra þig við heimilislækninn þinn. 

Það er greinilegt að þú veist um ýmis ráð við hægðatregðu en mig langar samt að láta fylgja með svarinu nokkur almenn ráð. 

Það er mögulegt að vinna á móti hægðatregðu með því að gera breytingar á mataræði þ.e. drekka meiri vökva, borða meira af ávöxtum og grænmeti og síðast en ekki síst að auka neyslu á trefjum s.s. All Bran, múslí o.fl.  Rauðrófusafi þykir t.d. góður við hægðatregðu og inniheldur mikið af vítamínum þ.m.t. járni.  Ef konur missa mikið blóð í fæðingunni er þeim oft ráðlagt að taka járn en nú veit ég ekki hvort þú hefur þurft á því að halda.  Vil bara benda þér á að járn getur valdið hægðatregðu svo ef þú tekur það þá ættir þú hafa samband við heimilisækninn þinn og biðja hann að meta hvort þú getir hætt því.

Á meðan hreyfingarleysi ýtir undir hægðatregðu þá er að sama skapi hægt að vinna á móti hægðatregðu með reglulegri hreyfingu.  Finndu hreyfingu sem hentar þér.

Ég vil einnig benda þér á að það er mikilvægt að fara á klósett um leið og þú finnur fyrir þörf fyrir að hafa hægðir og alls ekki að fresta því vegna þess að þá dregur líkaminn ennþá meira vatn úr hægðunum og þær verða ennþá harðari og þá verður bara erfiðara að koma þeim frá sér.  Þetta getur orðið slæmur vítahringur. 

Vona að þetta lagist hjá þér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
27. ágúst 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.