Hárlos eftir fæðingu

24.08.2005

Sælar ljósmæður.
Ég er með einn 3 1/2 mánaða strák.  Hann er á brjósti og allt í góðu þar.  En það sem er að gera mig vitlausa er mikið hárlos!  Það eru lufsurnar útum allt - koddinn minn er eins og ullargæra!  Hvað get ég tekið við þessu?
Með von um svör áður en ég verð sköllótt!
Kveðja,
hárlaus móðir

...........................................

Sæl og blessuð!
Hárlos er algengt hjá konum fyrstu mánuðina eftir fæðingu. Þetta er misjafnlega mikið hjá konum en sumar fá mjög mikið hárlos, og þú virðist greinilega vera ein af þeim.
Á meðgöngunni og í kringum fæðinguna fara margir hársekkirnir í svokallaðan  hvíldarfasa og þá deyja hárin í þeim, og í kjölfarið losnar hárið úr þeim á næstu mánuðum. Þetta er eðlilegt í nokkra mánuði eftir fæðingu og þú þarft því bara að vera þolinmóð á meðan þetta tímabil gengur yfir. Ég veit ekki til þess að það sé hægt að koma í veg fyrir þetta með einhverskonar bætiefnum, en það eru náttúrulega til ýmsir hárkúrar í apótekinu og ef þú ákveður að prófa einhvern slíkan ættir þú samt að láta heimilislækninn þinn kíkja á innihaldsefnin í honum til að vera viss um að það sé í lagi að taka þetta á meðan þú ert með barn á brjósti.
Svo vill ég náttúrulega hvetja þig til að borða fjölbreytta fæðu og taka lýsi.

Gangi þér vel,

Halla Björg Lárusdóttir
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
23.ágúst 2005.