Spurt og svarað

16. febrúar 2005

Heimsóknir eftir fæðingu

Sæl kæra ljósmóðir og takk fyrir góðan vef

Ég hef svo miklar áhyggjur af heimsóknunum sem fylgja eftir að ég er búin að eiga.
Mig langar ekkert til að fá fólk í heimsókn fyrr en í fyrsta lagi viku eftir að ég kem heim nema þá bara nánustu fjölskyldu. Er það frekt af mér? Er mikið að spái hvort fólk muni bara mæta á tröppurnar hjá manni eða hringja á undan sér. Finnst frekar dónalegt að þurfa að vísa fólki frá ef það er mætt, en ég ætla ekki að láta vaða yfir mig.

Svo er annað. Ég vil ekki fá krakka, fólk með kvef eða fólk með frunsu í heimsókn. Svo vil ég að fólk þvoi sér um hendurnar áður en það fer að potast í barninu mínu. Held að fólk athugi ekki að gera það óumbeðið sem mér finnst hugsunarleysi. Er það þá dónalegt að biðja fólk um að þvo sér um hendurnar? Er það ekki bara alveg sjálfsagt?

Mér finnst fólk bara vera að skemmta sjálfu sér og barnið mitt á ekki að vera neitt skemmtiatriði fyrir það. Mig langar bara að fá að vera í friði. Er eitthvað voða mikið að pirra mig á þessu og hafa áhyggjur núna. Ekki er neinn að hringja í mig núna eða heimsækja mig núna, myndi miklu frekar vilja fá heimsókn núna, hef ekkert að gera.

Jæja ég vona að þú hafir einhver svör handa mér. Með fyrirfram þökk.

Kveðja,

37 vikur.

......................................................................


Sæl vertu og takk fyrir fyrirspurnina.

Mikið finnst mér gott að sjá að þú ert búin að hugsa um og mynda þér skoðun um þessa hluti!  Þú ert í fullum rétti að fá að taka það rólega og kynnast barninu þínu fyrstu dagana eftir fæðingu án truflana heimsóknagesta.  Ég hef það á tilfinningunni að eina vandamálið sé bara hvernig þú eigir að koma ættingjum og vinum í skilning um þetta.  Ég held að það sé best að þú fáir einhvern nákominn þér til að koma þessum upplýsingum áfram, þá losnar þú við að þurfa að verja eigin tilfinningar og skoðanir.  Svo má auðvitað reyna að nota tæknina til að létta fólkinu biðina eftir að samfagna ykkur t.d. með því að opna heimasíðu við eða fyrir fæðingu þar sem þú (eða einhver sem er nákominn þér og tæknisinnaður) getur sett inn myndir og skrifað nokkur orð. Þar væri tilvalið að koma á framfæri óskum þínum varðandi handþvottinn, kvefið o.þ.h.  Eins má nota sér SMS skilaboð, t.d. láta fylgja með þegar þú
tilkynnir fæðinguna, þyngd og lengd og allt það, að þú afþakkir heimsóknir fyrstu vikuna en þú látir vita strax og þú treystir þér til að taka á móti gestum.

Með óskum um að þetta gangi vel,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. febrúar, 2005.

P.S.  Góður punktur þetta um að fólk mætti gjarna heimsækja þig núna! Kannski er málið að senda hópskilaboð á liðið og óska eftir heimsóknum núna gegn heimsóknarfríi fyrstu vikuna eftir fæðingu :)

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.