Spurt og svarað

27. mars 2011

Hlaup eftir fæðingu

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég hef oft nýtt mér hann og fengið nánast alltaf svör við því sem ég hef leitað af. Mig langaði samt sem áður að senda fyrirspurn til ykkar. Ég eignaðist litla stelpu fyrir 10 vikum síðan. Meðgangan gekk eins og í sögu og fæðingin gekk hratt og vel fyrir sig. Allt hefur verið eins og best verður á kosið. Þetta er mitt þriðja barn og allt gengur vel. Úthreinsuninni lauk svo fyrir u.þ.b. 2 vikum síðan og stelpan er á brjósti og það gengur rosalega vel. Áður en ég varð ófrísk var ég mjög góðu formi, hef alltaf hlaupið mikið og hélt mér í góðu formi alla meðgönguna og bætti litlu sem engu á mig. Nú er mig farið að langa að hlaupa aftur og hef prófað smávegis, hlaupið mjög hægt og labbað inn á milli. Ég fór í minn fyrsta eiginlega hlauparúnt fyrir tveimur dögum og það gekk bara mjög vel. Finn mikinn mun síðan ég fór út síðast. Ég fann ekkert til enda fór ég mér hægt og labbaði þegar mér fannst þörf á. Ég finn auðvitað fyrir smá harðsperrum núna, en það er bara gott. Svo í gær fór að blæða hjá mér. Það kemur mjög tært blóð en engir verkir með eða neitt og það blæðir ekki mikið. Ég var því að hugsa hvort þetta gæti tengst því að ég fór að hlaupa eða hvort ég hreinlega væri að byrja á blæðingum og þetta væri bara tilviljun. Ég man nefnilega eftir því að þegar stelpan var u.þ.b. 6 vikna, fór ég í göngutúr þar sem ég gekk frekar rösklega og eftir það jókst blæðingin en úthreinsunin hafði þá minnkað töluvert. Þess vegna var ég að spá hvort þetta væri út af því ég fór að hlaupa í fyrra dag.

Með bestu kveðju og von um svar, Hlaupagikkurinn.


Sæl og blessuð!

Til hamingju með dótturina, gott að heyra að allt gangi svona vel hjá ykkur! Ef stelpan er eingöngu á brjósti er mjög ólíklegt að þú sért að byrja á blæðingum, ef þessi blæðing hefur haldið áfram þá ættir þú nú sennilega að láta kíkja á þig því það ætti ekki að fara blæða aftur eftir þetta langan tíma. Ef þetta var hins vega bara smá skvetta sem síðan hætti strax og hefur ekki komið aftur þá þarftu ekki að hafa áhyggjur.

Gangi ykkur áfram sem allra best.

Með bestu kveðju,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
27. mars 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.