Hvað er legið lengi að dragast saman?

31.01.2006

Ég eignaðist stelpu með keisara í nóvember.  Hvað tekur það langan tíma
fyrir magann að verða nokkurn veginn eins og hann á að sér að verða?  Er
nokkuð sem ég get gert til að flýta fyrir því ferli?

Kveðja Anna

.......................................................

Komdu sæl, Anna

og til hamingju með dótturina!

Það tekur legið u.þ.b. sex vikur að dragast saman og verða aftur að sambærilegri stærð og var fyrir þungun. Þú talar um hvenær "maginn" verði nokkurn veginn eins og hann á að sér að verða og geri ég ráð fyrir, að þú sért að tala um kviðvöðvana. Það er alltaf svolítið einstaklingsbundið, hvað konur eru fljótar að ná sér og skiptir þar máli í, hvernig líkamlegu formi þær eru í fyrir. Því betra líkamlegt form fyrir þungun og á meðgöngu þeim mun fljótari eru þær að komast aftur í fyrra form eftir fæðingu. Á meðgöngunni verðu mikið tog á kviðvöðvum, grindarbotnsvöðvum og vöðvafestum í langan tíma, sem veldur því, að þeir verða slakari en áður og þurfa tíma til að ná aftur fyrri styrk og vöðvaspennu. Þar sem þú fæddir dóttur þína með keisaraskurði, máttu gera ráð fyrir að það taki þig örlítið lengri tíma að ná þér en aðrar konur sem fæða um fæðingarveg. Það var jú gerður á þér holskurður, sem þarf líka að fá tíma til að gróa. Enda þótt saumar séu fjarlægðir á fimmta degi eftir fæðingu getur það tekið allt að 6-8 vikur þar til örið er vel gróið. Það má byrja rólega að gera "léttar æfingar" eftir fyrsta eða annan daginn eftir keisarafæðingu s.s.grindarbotnsæfingar, öndunaræfingar, fótaæfingar og kviðæfingar allt varlega eftir því, hvað hver og ein treystir sér til en varast að ofgera sér ekki. Þegar konur eru farnar að hreyfa sig sársaukalaust er öll venjuleg hreyfing styrkjandi fyrir þær t.d. stuttar eða langar gönguferðir allt eftir getu og löngun hverrar og einnar.  Eftir því sem líkamlegur styrkur eykst má auka styrk æfinganna og þar gildir hin almenna regla um skynsemi að fara ekki fram yfir sársaukamörk. Síðan er talað um að byrja ekki á erfiðari leikfimi fyrr en
eftir þrjá mánuði frá barnsburði eða þegar konunni finnst hún vera búin að
jafna sig nokkuð vel.
Hollt mataræði er líka mikilvægt, þegar við erum að koma okkur í form en megrunarkúrar eru ekki viðeigandi á meðan við erum með barn á brjósti.

Gangi þér vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðigur.
31.01.2006.