Hvenær byrja blæðingar á ný eftir fæðingu

30.11.2005

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég er með 7 mánaða barn á brjósti og hef enn ekki byrjað á blæðingum.  Er talað um einhvern ákveðin mánaðafjölda þangað til maður byrjar eða er það einstaklingsbundið og kannski bundið við brjóstagjöf? Langar nefnilega að verða ólétt aftur en veit ekki alveg hvernig ég á að fylgjast með þessu núna (t.d. taka óléttupróf) þar sem ég hef engar blæðingar að miða við.

Kveðja.

.....................................................

Sæl og blessuð.

Það er mjög einstaklingsbundið hvenær blæðingar hefjast aftur eftir fæðingu. Það eru þó sterk tengsl við brjóstagjafatíma. Ef brjóstagjöf gengur vel og gjafir eru tíðar og nokkuð reglubundnar þá verður ekki egglos eða blæðingar. Það er ekki fyrr en eitthvert rof verður á brjóstagjöfinni t.d. að 1-2 gjafir detta út að eitthvað getur farið að gerast. Þú getur notað óléttupróf hvenær sem er ef þú merkir einhver þungunareinkenni.

Með bestu kveðjum.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. nóvember 2005.