Hvenær byrja blæðingar eftir að brjóstagjöf er hætt?

06.01.2005

Ég átti fyrir 10 mánuðum og hætti með á brjósti fyrir 1 mánuði og hef ekki enn haft blæðingar og ekki egglos heldur miðað við hitamælingu og hef ekki tekið nein getnaðarvarnarlyf og er ekki ólétt. Hvað á maður að bíða lengi áður en maður lætur tékka á sér og skiptir aldur þá kannski líka máli en ég er 35 ára.

..............................................................

Komdu sæl og gleðilegt ár.

Það telst eðlilegt að það líði allt að þremur mánuðum áður en blæðingar hefjast eftir að kona hættir með barn á brjósti.  Þetta er mjög einstaklingsbundið og þarf ekki alltaf að vera eins hjá sömu konunni.  Ég hvet þig til að vera alveg róleg yfir þessu, blæðingarnar koma fyrr en síðar.  Þú getur líka fengið þér egglos próf í apóteki sem sýnir þér hvenær egglos er hjá þér ef þú villt reyna strax að verða ólétt. Með aldrinum minnkar frjósemin þannig að ef þú hyggur á frekari barneignir og ert tilbúin  til að ganga með annað barn þá er ekki eftir neinu að bíða.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Málfríður St. Þórðardóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
5. janúar 2005.