Kláði í saumum o.fl.

11.05.2005

Góðan daginn og takk fyrir frábæran vef!

Það eru nú liðnir 3 mánuðir frá því ég átti dóttur mína. Vandamálið er að það er alveg rosalegur kláði þar sem ég var saumuð, alls á þremur stöðum. Ég finn lítinn hnút það sem voru saumuð flest spor og sá staður veldur mér einnig óþægindum í vissum stellingum þegar við stundum okkar leikfimi. Ég hef ekki stundað mikla leikfimi enda ekki nema 3 mánuðir síðan en núna síðustu 3 vikur höfum við verið að reyna að byrja aftur. Þessi kláði er kemur bara þegar ég strýk yfir svæðið t.d. þegar ég skeini mér eða þegar við reynum að stunda okkar leikfimi. Ég hef einnig tekið eftir því að þar sem ég var saumuð sem er frekar neðarlega nánast alveg við endaþarm er eins og það hafi orðið „lykkjufall“smá skinnpoki eða hvað ég á að kalla þetta  en þetta var ekki þarna fyrr en eftir fæðinguna og lafir pínu. Er eðlilegt að klæja svona? Er ekki með nein útbrot eða neitt slíkt! Hvað getur þetta verið þegar það lafir smá skinn frá saumnum og alveg að endaþarmsopi? Ekki skemmtilegt að finna fyrir þessu og ekkert smá neyðarlegt að þurfa hugsanlega að fara með þennan vanda til læknis. Guð minn góður - þarf ég að fara til læknis?

Alveg í losti.

...........................................................................

Sæl!

Það er erfitt fyrir mig að meta vandamálið og þar af leiðandi erfitt að gefa þér ráð. Ég held að þú ættir að láta kvensjúkdómalækni líta á þetta þar sem þetta veldur þér svona miklum óþægindum. Kvensjúkdómalæknar eru nú alvanir að eiga við svona vandamál og það ætti ekki að vera svo mikið mál að láta líta á þetta.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. maí 2005.