Kláði í saumum.

02.02.2005
Sæl, kæra ljósmóðir!
Ég fæddi stúlku fyrir tæpum þremur vikum og rifnaði það mikið að ég var svæfð eftir fæðingu þegar ég var saumuð og svo aftur eftir viku til að skoða og laga. Stuttu síðar byrjaði mig að klæja ofsafengið í saumana og klæjar mikið enn. Það er búið að útiloka sveppasýkingu, en ég held að kláðinn sé bundinn við saumana.
1) Hversu lengi þarf ég að bíða eftir að saumarnir eyðist?
2) Ég hef verið að nota krem til að reyna að slá á kláðann (xylocain, canesten og Mirandas-fótakrem) en það síðast nefnda er það eina sem eitthvað slær á. Einnig ísbakstra. Er til eitthvað annað?
Með fyrirfram þökk,
mamma litla.
                         ............................................................................
 
Komdu sæl og til hamingju með stúlkuna.
 
Ef liðnar eru tvær vikur frá seinni saumaskapnum má alveg fara að taka saumana.  Það geta annars liðið nokkrar vikur í viðbót þar til þeir fara af sjálfu sér.  Farðu á heilsugæslustöðina þína og fáðu ljósmóður eða lækni til að taka sauman og skoða þig.  Þér líður örugglega betur strax og þeir eru farnir.  Annars ertu með öll helstu ráð á hreinu við kláðnum (nema hvað ég hef ekki heyrt um þetta fótakrem áður).
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. 02.02.2005.