Spurt og svarað

14. október 2006

Klippt í fæðingu o.fl.

Hæ, hæ og takk fyrir góðan vef!

Ég er með spurningar sem ég hef ekki fundið svar við hér. Það eru liðnar 4 og ½ vika frá fæðingu hjá mér og kláraðist úthreinsun að mestu leyti hjá mér þegar stelpan var u.þ.b. 3 vikna. Núna síðustu 2 daga hefur verið að koma aðeins dökkt blóð aftur en mjög lítið og ég er búin að vera með eins og hálfgerða túrverki og óþægindi í maganum. Er það eðlilegt eða þarf ég að láta athuga með það? Á ég nokkuð að byrja á túr fyrst ég er með barn á brjósti? Einnig langaði mér að forvitnast með kynlíf. Ég var klippt í fæðingunni og finnst eins og það sé allt orðið gróið hjá mér, ég fæ ekki tíma í eftirskoðun fyrr en 8 vikur eru liðnar frá fæðingunni. Borgar sig ekki að bíða með að stunda kynlíf þar til búið sé að athuga hvort þetta sé nú allt saman gróið rétt saman eða er í lagi að gera það ef maður treystir sér í það andlega? Hvað á það að taka langan tíma að jafna sig eftir að vera klippt? Hef verið að heyra að það geti verið mun lengur að gróa heldur ef maður rifni og einnig að fyrsta skiptið sé verra. Er eitthvað til í því? Er voðalega stressuð um að þetta verði eitthvað rosalega vont í fyrsta skiptið 

Með von um svör. Ein nýbökuð mamma :o)


Sæl!

Þessi útferð sem þú talar um getur alveg verið tíðarblæðing, þrátt fyrir brjóstagjöf er mjög misjafnt hvenær konur byrja að hafa blæðingar aftur en sjálfsagt er að minnast á þetta í eftirskoðun. Hvenær konur eru tilbúnar að stunda kynlíf eftir fæðingu er einnig misjafnt. Þú verður að ákveða sjálf hvenær þú leggur í það aftur.  Eðlilegt er að vera kvíðin fyrir „fyrsta“ skiptinu og sjálfsagt að ræða við maka þinn um það og prófa sig varlega áfram. Stundum getur hjálpað að nota sleipiefni þar sem konur finna fyrir meiri þurrk að neðan á þessu tímabili. Grindarbotnsæfingar hjálpa til að styrkja vöðvana og gott er að gera þær reglulega. Þú ættir ekki að vera lengur að gróa þrátt fyrir spangarklippingu, vefirnir þarna niðri eru mjög blóðríkir og gróa venjulega hratt og vel. Vertu bara afslöppuð og taktu því rólega, þetta kemst allt saman í fyrra horf með tíð og tíma.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. október 2006
.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.