Kyndeyfð eftir barnsburð

20.02.2005
Mig langar til að spyrja um kyndeyfð eftir barnsburð. Við hjónin eignuðustum okkar fyrsta barn fyrir 4 mánuðum og við erum afskaplega hamingjusöm með það. Allt gengur bara nokkuð vel fyrir sig en ég er með hana á brjósti.  Eins mikið og ég sakna mannsins míns þá er ég afskaplega löt í kynlífinu. Ég hef engan veginn sama áhuga og áður og finnst það mjög leiðinlegt. Er eitthvað hægt að gera til að bæta úr þessu, borða sérstakan mat eða er þetta hormónatengt?
 
                           ................................................................................................
 
Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.
 
Minni áhugi á kynlífi eftir barnsburð er mjög algengur.  Allt breytist við komu barns á heimilið.  Hlutverk þitt breytist frá því að vera bara eiginkona í að vera móðir og eiginkona.  Þannig breytist líka hlutverk mannsins í að vera faðir líka.  Fyrstu mánuðirnir eru krefjandi meðan þið eruð að læra á barnið og hvort annað í þessum breyttu hlutverkum.  Það er líka krefjandi og mikil vinna að vera með barn á brjósti og eðlilegt að þú sért þreytt og kannski ekki vel upplögð fyrir kynlíf.  Slitinn svefn á nóttunni er líka þreytandi og svo framvegis. 
 
Skortur á Zinki í mataræði getur orsakað kyndeyfð en ég held í þínu tilviki að aðstæðurnar hafi meira að segja en skortur og einhverjum efnum.  Vertu þolinmóð, löngunin kemur sennilega aftur þegar lengra er um liðið.  Hugurinn hefur líka mikið að segja, ef þú undirbýrð þig í huganum að nú ætlið þið að eiga stund saman og þið  reynið að eiga rómantíska stund meðan stelpan sefur (ekki endilega bíða til kvölds því þá ertu þreyttari), þá getur það hjálpað þér af stað.  Umfram allt,  talaðu við manninn þinn og segðu honum hvernig þér líður og vinnið að málinu í sameiningu.
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. 20.02.2005.