Kynlíf eftir fæðingu

07.07.2004

Hæ hæ
Það sem ég vil fá að vita eftirfarandi: Í febrúar 2003 eignaðist ég stelpu og kynlífið var mjög vont eftir það, svo eignaðist ég strák núna í maí og við höfum reynt að stunda kynlíf í 4 skipti. Það er ekki svona vont eins og það var eftir stelpuna heldur akkurat öfugt. Ég finn ekki neitt. Ég finn fyrir limnum en þetta er ekki að gera neitt fyrir mig kynferðislega. Svo prófuðum við að nudda snípinn en ekkert gerist. Er þetta eitthvað sem lagast með tímanum? Eða er þetta eitthvað sem ég þarf að láta athuga hjá lækni?
Með fyrirfram þökk fyrir skjót svör...

                      ...............................................................................

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Því miður finn ég ekkert um þetta í mínum kennslubókum og blöðum.  Mér finnst þó jákvætt að þú finnir fyrir limnum, það þýðir að ekki vantar alla tilfinningu í kynfærin. Það er hugsanlegt að taugaskaði hafi orðið í fæðingunni, sérstaklega ef hún gekk eitthvað erfiðlega, en það lagast í flestum tilfellum með tímanum.  Grindarbotnsæfingar eru líka nauðsynlegar og hjálpa mikið.  Rannsóknir hafa sýnt að þær gera kynlífið ánægjulegra bæði fyrir konuna og manninn.  Sýndu þolinmæði þetta getur lagast en það er sjálfsagt fyrir þig að tala við lækni ef þú hefur áhyggjur.

 

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.  07.07.2004.