Kynlíf eftir fæðingu

08.05.2004

Hæ hæ!

Mig langar að vita hvort það sé eðlilegt að það sé vont að stunda kynlíf í langan tíma eftir meðgöngu.  Ég átti stelpuna mína í febrúar og byrjaði að stunda kynlíf aftur í enda mars og það var virkilega vont. Ég hélt að þetta myndi nú skána með tímanum en það er ekki orðið betra ennþá - 15 mánuðum seinna. Verkirnir lýsa sér þannig að það er eins og hann sé að stinga mig með hníf eða einhverju álíka í hvert skipti sem hann stingur honum inn, sama hversu langt.  Nú er ég komin 36 vikur á leið aftur og vona svo innilega að þetta verði ekki eins.  Er eitthvað hægt að gera í þessu?

Með fyrirfram þökk.

.....................................................................

Sæl!

Það sem þú lýsir hér getur ekki talist eðlilegt.  Ef þú hefur aldrei fundið fyrir þessum óþægindum áður en þú fæddir stelpuna þína þá er líklegt að þetta tengist skaða eða breytingum sem hafa orðið á fæðingarveginum við fæðinguna.  Margar konur finna hins vegar til óþæginda af og til þegar þær stunda kynlíf og oft má rekja þau óþægindi til þess að leggöngin eru ekki nægjanlega vel smurð.  Ef þú telur að það sé vandamál hjá þér þá gætir þú prófað að nota sleipiefni t.d. K-Y Gel sem fæst í apótekum.  Ég vil svo benda þér á að ráðfæra þig við kvensjúkdómalækni ef þetta verður áfram svona vont eftir næstu fæðingu.

Anna Sigríður Vernharðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - 8. maí 2004.