Kynlíf eftir fæðingu

17.06.2006
Ég átti barn fyrir 8 vikum síðan.  Ég hef ekki farið í eftirskoðun þar sem ljósan mín taldi að ég þyrfti þess ekki vegna þess hversu vel fæðingin gekk og hversu lítið þurfti að sauma (ca 2-3 spor).  Málið er að ég þori einhvern veginn ekki að stunda kynlíf.  Ég er svo hrædd um að finna til eða rífa eitthvað og mér finnst allt vera svo viðkvæmt og opið.  Eru miklar líkur á að sárin séu ekki gróin á þessum tíma og má ég búast við upplifa kynlífið öðruvísi en fyrir fæðingu?
 
...............................................
 
Komdu sæl og til hamingju með barnið.
 
Að byrja að stunda kynlíf eftir fæðingu getur verið mikið mál.  Mikilvægt er að þið talið saman og byrjið hægt í fyrstu meðan þú ert að finna hvað þú getur, þolir eða finnst gott eða vont.  Sárið er örugglega löngu gróið þannig að þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því og getur alls ekki rifið neitt upp eftir svona langan tíma.  Það er mjög einstaklingsbundið hjá konum og körlum hvort þeim finnist kynlífið öðruvísi eftir fæðingu en áður, það er eitthvað sem kemur bara í ljós þegar þið byrjið.
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
17.06.2006.