Kynlíf eftir fæðingu.

29.11.2004

Ég vil byrja á því að þakka fyrir frábæran vef, það er sko gott að geta kíkt á þessa síðu þegar maður þarf að vita eitthvað.

Hvenær er í lagi að byrja að stunda kynlíf eftir fæðingu? Þarf maður að bíða eftir að úthreinsun ljúki og hvað tekur úthreinsun langan tíma? Fara leggöngin í samt far aftur eða verður maður mjög "víður" þarna niðri? Hvað tekur það innri saumana langann tíma að gróa?
Með fyrirfram þökk og um von að þið getið upplýst mig um þessi málefni.

                            ..................................................

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Í rauninni er í lagi að byrja að stunda kynlíf eftir fæðingu þegar hin nýbakaða móðir treystir sér til þess.  Það er mjög mismunandi eftir konum hvenær sá tími kemur.  Sumar konur eru tilbúnar snemma og aðrar seint það fer allt eftir konunni, hvernig fæðingin gekk, hvort mikið þurfti að sauma o.s.frv.  Þetta fer líka eftir barninu hvort það er vært og sefur vel eða hvort það er erfitt og móðirin dauðþreytt en þá er hún kannski ekki í formi til að hefja kynlíf.

Gott er að nota smokka og gæta fyllsta hreinlætis á meðan úthreinsun á sér stað til að koma í veg fyrir sýkingu.  Úthreinsun getur staðið í allt að sex vikur eftir fæðinguna.

Við fæðingu víkka leggöngin en þau jafna sig með tímanum.  Ef þú byrjar að hafa kynmök stuttu eftir fæðinguna getur verið að maðurinn þinn finni einhvern mun svona fyrst.   Við kynmök víkka leggöngin hjá öllum konum og aðlaga sig getnaðarlimi mannsins svo að þetta er venjulega ekki vandamál.  Mundu bara að gera grindarbotnsæfingar.

Saumarnir eyðast á fyrstu sex vikunum eftir fæðinguna.  Konan getur samt þurft lengri tíma til að jafna sig sérstaklega ef hún hefur rifnað mikið eða verið klippt.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. 29.11.2004.