Spurt og svarað

29. nóvember 2004

Kynlíf eftir fæðingu.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir frábæran vef, það er sko gott að geta kíkt á þessa síðu þegar maður þarf að vita eitthvað.

Hvenær er í lagi að byrja að stunda kynlíf eftir fæðingu? Þarf maður að bíða eftir að úthreinsun ljúki og hvað tekur úthreinsun langan tíma? Fara leggöngin í samt far aftur eða verður maður mjög "víður" þarna niðri? Hvað tekur það innri saumana langann tíma að gróa?

Með fyrirfram þökk og um von að þið getið upplýst mig um þessi málefni.

                            ..................................................

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Í rauninni er í lagi að byrja að stunda kynlíf eftir fæðingu þegar hin nýbakaða móðir treystir sér til þess.  Það er mjög mismunandi eftir konum hvenær sá tími kemur.  Sumar konur eru tilbúnar snemma og aðrar seint það fer allt eftir konunni, hvernig fæðingin gekk, hvort mikið þurfti að sauma o.s.frv.  Þetta fer líka eftir barninu hvort það er vært og sefur vel eða hvort það er erfitt og móðirin dauðþreytt en þá er hún kannski ekki í formi til að hefja kynlíf.

Ráðlagt er að nota smokk og gæta fyllsta hreinlætis á meðan úthreinsun er enn til staðar til að koma í veg fyrir sýkingu. Úthreinsun getur staðið í allt að sex vikur eftir fæðinguna.

Við fæðingu víkka leggöngin en þau jafna sig með tímanum.  Ef þú byrjar að hafa kynmök stuttu eftir fæðinguna getur verið að maðurinn þinn finni einhvern mun svona fyrst. Við kynmök víkka leggöngin hjá öllum konum og aðlaga sig getnaðarlimi mannsins svo að þetta er venjulega ekki vandamál. Mundu bara að gera grindarbotnsæfingar.

Saumarnir eyðast á tveimur til sex vikunum, það fer eftir því hvernig saumar eru notaðir.  Konan getur samt þurft lengri tíma til að jafna sig sérstaklega ef hún hefur rifnað mikið eða verið klippt.

Kveðja, Rannveig B. Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
Yfirfarið í júní 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.