Kynlíf stuttu eftir fæðingu

16.12.2006
Sælar og takk fyrir gagnlegan vef

Ég eignaðist barn fyrir 17 dögum og fannst ég vera tilbúin að fara að stunda kynlíf aftur því sársaukinn var farinn og útferðin nánast engin.  Við notuðum smokk til að koma í veg fyrir sýkingu. En svo var þetta óþægilegt, ekki mjög sárt, en samt soldið vont og núna svíður mig í píkuna. Það kom líka smá blóðlitaður vökvi úr leggöngunum þegar ég fór á klósettið. Ég er dauðhrædd um að ég hafi valdið einhverjum skaða. Ég var saumuð. Ég fékk fyrsta stigs rifu en það voru mörg spor. Getur verið að ég hafi skaðað mig eitthvað? og er í öllum tilvikum of snemmt að byrja kynlíf tæpum þremur vikum eftir fæðingu?

Komdu sæl og til hamingju með barnið.
 
Nei þú ert ekkert að byrja kynlíf of snemma það verður hver og ein að ákveða fyrir sjálfa sig hvenær hún er tilbúin.  Það er næstum ómögulegt að þú hafir skaðað þig eitthvað með þessu, sennilega hefur bara blætt aðeins frá leghálsinum því hann er enn viðkvæmur eftir fæðinguna.  Leggöngin eru líka oft þurr eftir fæðingu og sérstaklega þegar konan er með barn á brjósti og það getur hafa valdið óþægindunum og sviðanum.   Fyrsta stigs rifa er mjög lítil og slímhúðin grær á u.þ.b. viku.  Það getur hinsvegar tekið saumana um 6 vikur að leysast alveg upp og hverfa þannig að hugsanlega hefur eitthvað tog komið á sauma sem eru undir húðinni.  Þetta er hættulaust og ekkert til að hafa áhyggjur af.
 
Bestu kveðjur
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. 
15.12.2006.