Er í lagi að borða Grana Padano ost á meðgöngu?

20.02.2012
Komið þið sælar og takk fyrir afar gagnlegan vef!

Er í lagi að borða Grana Padano ost á meðgöngu? Ég spyr því þessi ostur virðist vera til staðar í ansi mörgu sem selt er í krukkum hér á landi, svo sem í grænu og rauðu pestói og ýmiskonar tómatmauki sem notað er ofan á brauð. Þetta eru yfirleitt erlendar vörur og þ.a.l. með erlendum osti en það stendur ekkert um það hvort að hann sé gerilsneyddir eður ei.

Kveðja, Unnur.

Sæl Unnur!

Grana Padano ostur er svipaður hinum fræga Parmesan osti. Hann er miðlungsfeitur, harður ostur sem er hitaður hægt og fær að þroskast á a.m.k. 9 mánuðum. Bæði Parmesan og Grana Padano eru framleiddir úr ógerilsneyddri mjólk. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fann (sjá heimild) er samt óhætt að borða Parmesan ost á meðgöngu og ég býst við að það sama gildi um Grana Padano. Það er talið sérstaklega varasamt að borða osta sem búnir eru til úr ógerilsneyddri mjólk ef þeir eru auk þess mjúkir, með hátt rakainnihald og ekki eins súrir s.s. Brie, Camenbert og gráðostur því það er við þær aðstæður sem Listerían nær að dafna.

Sjá einnig fyrirspurnina Meira um erlenda osta.

 

Ostakveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. febrúar 2012

Heimild: http://www.babycentre.co.uk/pregnancy/nutrition/foodsafety/cheeseexpert/