Spurt og svarað

06. júlí 2004

Líkamsrækt eftir fæðingu

Hvenær er óhætt að byrja að stunda líkamsrækt eftir fæðingu og hvaða æfingar er best að stunda og eins að forðast?

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina. 

Líkamsrækt eða líkamsþjálfun eftir eðlilega fæðingu og eðlilega meðgöngu er af hinu góða og flýtir fyrir því að konan nái upp eðlilegu líkamsástandi. Líkamsrækt styrkir stoðkerfið og getur fyrirbyggt vandamál eins og bakvandamál í tengslum við brjóstagjöf eða þvagleka vegna slappra grindarbotnsvöðva. Það er líka talið gott fyrir sálartetrið og andlega líðan að hreyfa sig og skipta um umhverfi með því að fara út af heimilinu. Konur finna það best sjálfar hvenær þær eru tilbúnar að byrja líkamsrækt eftir fæðingu. Það er einstaklingsbundið og skiptir þar máli í hvers konar formi konan er við fæðingu, hvort hún hefur stundað líkamsrækt á meðgöngu og/eða fyrir hana. Þó ættu allar konur að gera grindarbotnsæfingar strax eftir fæðingu til að styrkja grindarbotninn og koma þannig í veg fyrir vandamál honum tengdum. Öllum konum ætti að vera hollt að fara út að ganga fljótlega eftir fæðingu, en bara stutt í einu. Sund er einnig gott eftir að hreinsun lýkur en passa verður vel upp á brjóstin hjá mjólkandi konum vegna kulda, sem getur orsakað mjólkurstíflur.

Dæmi um æfingar sem gott er að gera eftir fæðingu eru alhliða styrktaræfingar, ganga eða hjól, t.d. á þrekhjóli. Ekki má síðan gleyma að teygja vel á. Það sama á við um allar líkamsæfingar að hlusta vel á líkamann og ekki fara fram yfir sársaukamörk við æfingarnar.

Þær æfingar, sem ætti að forðast, dettur mér helst í hug hopp og hlaup á meðan grindarbotninn hefur ekki náð fullum styrk eftir fæðinguna.
 
Með ósk um gott gengi og heilbrigða sál í hraustum líkama.

Kolbrún Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
Yfirfarið í maí 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.