Spurt og svarað

20. október 2005

Líkamsrækt eftir fæðingu - Óværð og tengsl við mataræði móður

Ég er með tvær spurningar sem mér þætti vænt um að þið gætuð svarað.

Í þeim fyrirspurnum sem ég hef skoðað hjá ykkur varðandi líkamsrækt og hreyfingu eftir fæðingu er talað um að 6-12 vikur frá fæðingu sé æskilegur tími til að konan fari af stunda hreyfingu að einhverju ráði.  Nú er ég með einn tveggja vikna og hreinlega bíð eftir því að geta farið að hreyfa mig aftur, var í mjög góðu formi fyrir meðgöngu og gekk mikið og hreyfði mig á meðgöngunni sjálfri. Í mínu tilfelli þyngist ég ekki mikið enda snýst hreyfiþörfin frekar um þörfina sjálfa en að missa þessu nokkur grömm sem ég bætti á mig (sonur minn sér alveg um að drekka þau af mér).  Því spyr ég: Ef ég treysti mér til og finnst ég vera tilbúin til að fara að hreyfa mig, hver ætti fyrirstaðan að vera og af hverju er það skaðlegt að byrja of snemma? Ég hef í gegnum tíðina skautað mikið, hlaupið og lyft.

Síðan er ég með aðra spurningu: Hafa tengslin milli óværð barna og þess sem móðirin borðar einhvern tímann verið sönnuð? Sonur minn á það til að vera óvær, en alls ekki alvarlega, en hins vegar finnst mér eins og fólkið í kringum mig vilji um leið leita orsaka í þess sem ég borða. Ég er ekki að borða neitt sterkan mat og ekki appelsínusafa og svoleiðis en annars borða ég bara venjulega. Ef þetta hefur áhrif, hvenær koma áhrifin þá fram sama dag og maturinn er neyttur eða daginn eftir?

Góða helgi og með von um svör :)

Kveðja, Guðrún.

....................................................................


Sæl og blessuð Guðrún.

Það er nákvæmlega engin fyrirstaða fyrir því að þú getir farið að hreyfa þig. Það er mjög jákvætt að konur sem eru í góðu formi fari að hreyfa sig strax og þær treysta sér til. Það er betra að byrja rólega því ýmis liðbönd og vöðvar eiga eftir að jafna sig en þú finnur það svolítið sjálf.

Varðandi seinni spurninguna þá hafa tengsl milli óværðar barna og mataræðis móður aldrei verið sönnuð nema í sjaldgæfum tilfellum óþols eða ofnæmis. Margir telja þessi tengsl ekki vera til nema í hugum mæðra en þetta er jú fyrirbæri sem erfitt er að skoða og fá botn í. Einstaka ofurviðkvæmt barn virðist geta sýnt viðbrögð við breytingum á háttum móður eins og byrjun blæðinga, miklum fæðisbreytingum, breytingum á snyrtivörum ofl. Þessi árátta að kenna allri óværð barna til matar móður er mjög gömul. Sennilegasta skýringin finnst mér sú að þetta er sniðug skýring sem skapar skemmtilegar umræður í fjölmenni og dregur athyglina að þeim sem segir frá. Skýringin er örugglega ekki sú að verið sé að reyna að styðja við eðlilega brjóstagjöf því niðurstaðan er engin nema helst að valda móðurinni hugarangri og flækja málin. Ef leita þarf að skýringum á óværð barna þá eru þær oft á tíðum einfaldari og „ómerkilegri“ eins og svengd, of heitt, vantar nærveru, væg meltingaróþægindi eða bara pirringur (allir verða stundum pirraðir).

Gangi þér vel í líkamsræktinni,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. október 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.