Litur úthreinsunar og lykt

08.04.2006

Sæl og takk fyrir góðan vef!

Ég átti mitt fyrsta barn fyrir tæpum 3 vikum síðan og ég er með spurningu varðandi hreinsunina. Blæðingarnar breyttust fljótlega í vatnskennda útferð, hún er svolítið gul-brúnleit en mjög ljós, ekkert eins og blæðingar að minnsta kosti, lyktin er nú ekkert sérlega góð af þessu en nokkuð lík lyktinni af tíðablóði og þar sem ég hef ekki haft neinn hita eða kviðverki efast ég um sýkingu. Er eðlilegt að hreinsunin breyti svona um lit?

Með fyrirfram þökk, Guðlaug.


Komdu sæl, Guðlaug og til hamingju með barnið!

Það er alveg eðlilegt, að hreinsunin breyti svona um lit eins og hefur gerst hjá þér. Hreinsun frá legi eftir barnsburð varir yfirleitt í 3-4 vikur og breytir um lit eins og þú lýsir í fyrirspurninni þinni. Fyrstu dagana er hún blóðlituð og verður síðan brúnleit þar til í lok annarrar viku, að hún verður ljósgulleit þar til hún hættir. Það getur þó stundum komið fyrir, að útferðin sé blóðlituð í rúmar þrjár vikur áður en hún hættir alveg. Það á ekki að vera vond eða óþægileg lykt af útferðinni, en ef það gerist vaknar grunur um sýkingu og þarf viðkomandi þá að leita læknis.

Gangi þér vel!

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. apríl 2006.