Spurt og svarað

27. september 2006

Loft í leggöngum

Sælar verið þið.

Ætla að koma með eina fyrirspurn til ykkar, varðandi líkamann eftir fæðingu. Málið er að nú eru að verða komnir fimm mánuðir síðan ég eignaðist stelpuna mína og mér finnst ekki vera orðið allt eðlilegt, þ.e. líkamlega, eftir fæðingu.  Hef ekki enn lagt í kynlíf, andlega kannski orðin tilbúin en spurning er með líkamann. Oft á morgnana þegar að ég
vakna er eins og það sé svo mikið loft í leggöngunum, þ.e. ég stend upp og það er eins og það þrýstist út loftið, með tilheyrandi hljóðum! Getur þetta verið merki um e-s lags sýkingu eða hvað er þetta? Man ekki eftir þessu eftir að ég eignaðist fyrri stelpuna en finnst þetta bara vera svolítið mikið núna og spilar inn í að mér finnst ég ekki vera líkamlega tilbúin fyrir kynlíf.

Vonandi getið þið séð ykkur fært um að svara þessu, gott væri að vita af hverju þetta stafar.

Kveðja, stelpumamma

 
Komdu sæl og til hamingju með stelpuna.
 
Ég verð nú að viðurkenna að ég hef ekki heyrt um þetta fyrr, en líklega er þetta vegna þess að leggöngin eru enn talsvert víð eftir fæðinguna og víðari en síðast.  Það getur tekið marga mánuði fyrir líkamann að jafna sig eftir fæðinguna, þó það sé að sjálfsögðu mjög einstaklingsbundið.  Mér finnst ekki líklegt að um sýkingu sé að ræða þar sem þú talar ekkert um útferð eða vonda lykt sem venjulega fylgir sýkingu.  
Ég ráðlegg þér að vera dugleg við grindarbotnsæfingarnar og vita hvort þetta lagast ekki.  Þú skalt ekki hafa áhyggjur af þessu, að öllum líkindum lagast þetta með tímanum og þó þetta sé vissulega hvimleitt vandamál þá skaltu reyna að láta það ekki hafa áhrif á kynlífið.
 
 
Gangi þér vel.
 
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. 
27.09.2006.
 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.