Spurt og svarað

29. október 2004

Löng úthreinsun

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Þannig er mál með vexti að ég átti lítinn strák fyrir tæpum 8 vikum síðan. Blæðingin í úthreinsuninni var frekar mikil fyrstu 5 vikurnar og fór svo loksins að ljúka í sjöttu vikunni þ.e. brúnleit útferð og var lokið í lok hennar að ég hélt. Síðan blæddi ekkert í viku og ég á því að ég væri loksins laus við þetta en þá byrjaði að blæða aftur. Blæðingin byrjaði sem örlítil brúnleit útferð en hefur verið að aukast og er orðin frekar mikil núna og orðin meira svona dökkrauð. Ég hef ekki fengið neina verki með þessu en finnst þetta orðin svolítið langur tími og frekar skrítið þar sem þetta hætti í viku. Er þetta eitthvað sem ég á að hafa áhyggjur af? Getur verið að það hafi haft einhver áhrif á þetta að ég byrjaði að stunda kynlíf þessa viku sem ekkert blæddi sem getur hafa ollið því að það byrjaði að blæða aftur? Það fer reyndar að styttast í eftirskoðun hjá mér en ég er orðin pínu óróleg með þetta.

.................................................................


Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Til hamingju með litla kútinn þinn. Eftir fæðinguna blæðir fyrst í stað frá sárabeðinu í leginu þar sem fylgjan sat. Á annarri viku breytist blæðingin, yfirleitt minnkar hún mikið eða breytist í dökka útferð. Þrem til sex vikum eftir fæðingu barnsins lýsist útferðin síðan aftur og hættir svo smá saman. Sex til átta vikum eftir fæðingu á legið að hafa dregið sig saman og náð fyrri staðsetningu í grindarholinu. Margir mánuðir geta svo liðið þar til blæðingar hefjast að nýju. En þá getur skipt máli hvort konan er með barnið á brjósti eða ekki. Konur sem ekki hafa börn sín á brjósti byrja að hafa reglulegar blæðingar sex til fimmtán vikum eftir fæðingu. En hjá konum sem eingöngu gefa barni sínu brjóst geta liðið margir mánuðir þar til blæðingar hefjast. Algengt er að blæðingar séu óreglulegar fyrstu mánuðina eftir að þær hefjast að nýju. Vonandi skýrir þetta eitthvað fyrir þér, en ég tel að þú getir alveg verið róleg þar til þú ferð í eftirskoðun. Þú nefnir ekki hvort þú sér með barnið þitt á brjósti eða ekki en gott hefði verið að vita það með tilliti til blæðinganna. Ég tel ekki að samlíf ykkar hafi stuðlað að þessari blæðingu. En mjög misjafnt er hvenær par hefur samfarir eftir fæðingu. Ýmsir þættir skipta þar máli svo sem hvort konan hefur verið saumuð og sárin séu gróin og hvort hreinsun er búin eða ekki. Meðan hreinsun stendur enn er nauðsynlegt að nota smokk við samfarir til að draga úr sýkingahættu. Vegna hormónabreytinga er oft svolítill þurrkur í leggöngunum fyrstu þrjá mánuðina eftir fæðingu og jafnvel lengur ef konan er eingöngu með barnið á brjósti.

Kær kveðja,

Halla Huld Harðardóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
29. október 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.