Spurt og svarað

09. desember 2008

Los í rófubeini

Sælar og takk fyrir frábæran og mjög nytsaman vef!

Mig langar að fá svar við einni spurningu. Ég átti barn fyrir ári síðan og gekk fæðingin mjög hratt en mjög vel. Eftir fæðinguna var mér illt í rófubeininu í nokkra daga eða vikur en það jafnaði sig þó. Fyrir um nokkrum vikum síðan fór ég að finna fyrir verknum aftur og nú er orðið vont að sitja, kemur fljótt þreytuverkur og þá er einnig vont að liggja. Læknir sagði mér að þetta hefði gerst í fæðingunni, hefði komið los á rófubeinið. Á þeim tíma sem ég var góð æfði ég reglulega en byrjaði svo að vinna mikið og hef lítið getað hreyft mig sökum tímaleysis. Spurning mín er því sú er eitthvað hægt að gera annað en það augljósa, að hreyfa sig reglulega? Einnig, er þetta eitthvað sem lagast eða verð ég svona alltaf?

Kær kveðja og með fyrirfram þökk,

Mamman

 

 

Sæl

Verkir í stoðkerfi geta verið mjög hvimleiðir. Verkir eins og þú lýsir eru oft álagstengdir en geta verið hormónatengdir og þannig verið verri á ákveðnum tímapunkti tíðahringsins. Það sem er skynsamlegast  að gera til að koma í veg fyrir þennan verk og til að draga úr líkunum á honum er að hreyfa sig reglulega eins og þú segir sjálf.  Einnig getur verið hjálplegt að nota heit böð og hitapoka þegar þú ert slæm. Það er mikilvægt að gæta þess að nota réttar líkamsstellingar og stíga jafnt í báða fætur, að hafa jafnt álag á hrygginn.  

Því miður er algjörlega ómögulegt að áætla hvenær og hvort verkurinn hverfur. Það getur tíminn einn leitt í ljós. En það er vel þekkt að verkir í stoðkerfi eftir fæðingu geta verið allt að 2 ár að hverfa.  Sjúkraþjálfun gæti verið gagnleg fyrir þig og sjúkraþjálfari gæti lagt mat á hvað valdi verknum.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. desember 2008.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.