Magaæfingar eftir fæðingu

11.05.2004

Halló!

Mig langaði að athuga hvenær maður má byrja að gera magaæfingar eftir fæðingu og hvenær er í lagi að fara á hestbak?

................................................................

Komdu sæl!

Eftir eðlilega fæðingu um fæðingaveg er sjálfsagt að fara að gera léttar magaæfingar um leið og þér finnst þú vera tilbúin til þess, þess vegna viku eftir fæðingu. En á meðan hreinsunin er ennþá mikil, og maginn á þér er ennþá að ganga sem mest saman þá gæti þér þótt óþægilegt að gera magaæfingar. Hafa þarf í huga að á meðgöngu getur orðið gliðnun á magavöðvunum (þ.e. komið bil á milli þeirra sem ekki var fyrir) sem gerir að verkum að þeir styðja ekki við bakið eins og þeir hafa gert áður og því er mikilvægt að gera bakæfingar samhliða  magaæfingum, annars er hætt á að þú fáir bakverk.

Hvenær er óhætt að fara á hestbak er erfitt að segja, það fer eftir því hversu vön þú ert og hversu hraust þú ert, ég mundi segja að ef þú ert hraust og vön gætir þú farið á hestbak þegar þú treystir þér sjálf til.

Gangi þér vel.

Halla Björg Lárusdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - 11. maí 2004.