Spurt og svarað

26. júní 2007

Niðurgangur og hiti 5 dögum eftir fæðingu

Góðan daginn og takk fyrir frábæran vef!

Nú eru 5 dagar síðan ég átti mitt fyrsta barn og ég byrjaði að hafa hægðir 3 dögum eftir fæðinguna. Ástæða þess að ég hef samband er sú að þessar hægðir hafa bara verið niðurgangur og mér finnst hann frekar fara vernsnandi heldur en hitt. Er þetta eðlilegt svona eftir fæðingu? Ég var saumuð og er frekar aum eftir það og finn oft þrýsting niður áður en ég þarf að hafa hægðir.

Annað mál sem mig langar að spyrja um er varðandi stálmann. Mjólkin kom hjá mér fyrir alvöru fyrir um 2 dögum og nú er ég frekar aum í brjóstunum og þau verða mjög hörð ef það líður langur tími milli gjafa. Ég byrjaði að fá hita í gær og hefur hann verið frá 38.2 upp í 39 gráður. Hann var lægstur 37 gráður. Hitinn er enn í dag og virðist ekki vera að sýna á sér fararsnið. Það sem mig langar að vita er hvort það sé ekki eðlilegt að fá hita með þessum stálma og hvað þessi hiti standi lengi yfir? Ég tek það fram að mér líður alltaf betur og betur að neðan með hverjum deginum svo mér finnst líklegast að hitinn sé til komin vegna brjóstanna.

Takk fyrir, SG.


Sæl og blessuð SG.

Það er nú svo langt síðan þú skrifaðir að ég reikna með að öll þín vandamál séu yfirstaðin. Niðurgangurinn fer náttúrlega bara eftir því hvað þú borðar og jafnar sig yfirleitt á nokkrum dögum. Stálmi er líka bundinn við nokkra daga í byrjun brjóstagjafar. Það fer eftir því hversu slæmur hann nær að verða hvað hann er lengi að jafna sig. Það getur tekið viku eða 10 daga í verstu tilfellunum. Hitinn sem fylgir er yfirleitt ekki hár þannig að 39° C finnst mér ansi hátt. Vonandi hefur það bara verið hæsti toppurinn. Ef barnið er duglegt að sjúga er stálmi fljótur að jafna sig þannig að þetta byggir mikið á því. Það besta sem maður gerir er að hvetja barnið til að vera duglegt og svo að setja kalda bakstra á brjóstin eftir gjafir.

Vona að allt gangi vel.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. júní 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.