Spurt og svarað

03. maí 2005

Óregla á blæðingum eftir fæðingu o.fl.

Sælar!

Svo er til komið að 6 vikur eftir fæðingu var ég byrjuð á túr og á sama tíma og ég hef alltaf byrjað eða í byrjun mánaðarins en hreinsunin hafði þá verið búin fyrir um einni og hálfri viku áður. Ljósan mín sagði að mjög sjaldan byrjuðu konur á túr fyrr en 8 vikur eftir fæðingu og sagði að þetta gæti alveg verið hreinsun enn. Eitthvað sár að losna. En þar sem þetta byrjaði í byrjun mánaðarins þegar ég hef alltaf verið á túr byrjaði ég á brjóstapillunni og fór aftur á túr í lok mánaðarins og alveg í akkúrat 7 daga (hef alltaf verið á túr í 7daga) en svo hætti ég á brjóstapillunni því ég gleymdi henni alltaf (tek það fram að við höfum ALLTAF notað smokkinn eftir fæðingu, meira að segja þessar 3 vikur sem ég var á brjóstapillunni og aldrei orðið slys). Núna eru 3 vikur síðan ég átti að byrja á túr, hvernig á ég að túlka það? Á ég að fara útí apótek að kaupa óléttupróf eða er þetta bara líkaminn minn að gabba mig? Ég er með 4 mánaða dóttir mína á brjósti og aðeins á brjósti og hún þyngist fínt!

p.s ein spurning í sambandi við brjóstagjöfina.

Hún dóttir mín hefur aldrei fengið mikið í magann, bara rétt einstaka daga pínu lítið í örfáar mínútur. Undanfarna daga þegar hún er búin að drekka í korter og er að komast á það stig að hún sé að verða södd þá byrjar hún að rembast og gráta. Ég læt hana ropa og held áfram en alltaf það sama. Um leið og hún kyngir engist hún um og grætur heldur samt strax áfram en eftir næsta sinn sem hún kyngir þá grætur hún aftur. Ég er farin að halda að þetta gæti verið sársauki við að kyngja en ekki magann (hún engist samt alltaf svo til með magann) þetta er nú meiri langlokan.

Kær kveðja frá áhyggjufullri ungri konu sem langar ekki að verða ólétt aftur einmitt núna og vill ekki að barnið sitt gráti í brjóstagjöfinni :o)

........................................................................


Sæl og blessuð!

Mér finnst nú afar ótrúlegt að þú eigir von á barni aftur. Það er að sjálfsögðu ekki útilokað en eins og ég segi afar ólíklegt. Það eru alltaf inn á milli konur sem byrja á blæðingum fljótt eftir fæðinguna og ekkert að því. Margar af þeim hafa samt einhverja óreglu sérstaklega fyrstu mánuðina svo það getur vel verið skýringin. Óreglan skýrist að hluta til af brjóstagjafahormónunum.  Brjóstagjöf sem slíka er hægt að nota sem getnaðarvörn en þá þarf að fylgja ákveðnum reglum eftir. T.d. má barnið aldrei fá snuð og það má aldrei líða nema ákveðinn tími milli gjafa, barnið má aldrei fá neitt annað en brjóst o.s.frv. Það er sjaldgæft að íslenskar konur uppfylli þessi atriði þannig að yfirleitt geta þær ekki treyst á brjóstagjöf sem getnaðarvörn. Brjóstagjöf eingöngu á fyrstu mánuðunum getur þó dregið þó nokkuð úr líkum á þungun. Brjóstagjafapillan sem þú tókst inniheldur að sjálfsögðu hormón sem getur hjálpað til við ruglinginn.

Seinna atriðið sem þú veltir upp er varðandi hugsanlega magaverki barnsins í gjöf. Ég veit ekki alveg hvað er þarna á seyði en byrjaðu á því að kíkja á stellinguna sem hún er í við gjöfina. Er hún nokkuð með snúið upp á hálsinn eða með hausinn skakkan miðað við búkinn. Beygir hún höfuð ofan í bringu eða er hún afturfett. Þetta eru stöður sem geta valdið óþægindum við kyngingu. Ef þú ert sannfærð um að gráturinn tengist kyngingunni myndi ég ráðleggja þér þegar þú ert búin að reyna að breyta stellingunum að fá læknisskoðun. En þangað til að sjálfsögðu lýkur gjöfinni þegar hún byrjar að gráta.

Með bestu óskir um ánægjulega brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.