Óþægindi eftir fæðingu

19.12.2011

Sælar og takk fyrir góðan vef.


Mig langaði svolítið að spyrjast fyrir um óþægindi eftir fæðingu. Ég átti dóttur fyrir 3 mánuðum síðan, þetta var ansi erfið fæðing og ég rifnaði 2.stigs rifu. Ég var saumuð og mér finnst ég enn finna til þar. Ég fór til læknis nokkrum vikum eftir fæðingu því ég var með mikil óþægindi í svæðinu þar sem ég hafði verið saumuð. Læknirinn sagði að þetta liti alltsaman vel út og væri að gróa rétt. Í eftirskoðuninni var allt gróið. Ég finn hinsvegar ennþá óþægindi á þessu svæði, sérstaklega þegar ég sit á ákveðin hátt, ef það kemur smá þrýstingur þarna niður og eiginlega bara alltaf. Er þetta eðlilegt? Er það bara svona að eiga börn? Að maður verður aldrei eins aftur? Á ég að láta kíkja á þetta eina ferðina enn og er möguleiki á því að það þurfi að klippa og sauma saman aftur?


Kveðja

 


 

Komdu sæl.


Það er ekki eðlilegt að finna alltaf til í spönginni eftir fæðingu.  Saumar geta verið mislengi að eyðast og þá er ég að tala um þá sem voru saumaðir inni í spönginni og sjást ekki utanfrá.  Það getur verið skýring.  Önnur skýring getur verið slappir grindarbotnsvöðvar eftir meðgönguna og fæðinguna.  Ef þú gerir grindarbotnsæfingar reglulega þrisvar á dag og að minnsta kosti 20 sinnum í hvert skipti ættir þú að finna mun á þér á nokkrum vikum.  Þriðja skýringin getur svo verið þurrkur í leggöngum og ytri kynfærum vegna hormóna sem fylgja brjóstagjöf.


Ef þetta lagast ekkert á næstu vikum er ástæða til að láta kíkja á þetta aftur, en þar sem allt hefur litið vel út fram að þessu tel ég ólíklegt að þú þurfir í aðgerð en það er læknisins að meta það eftir þeim einkennum sem þú hefur. 


Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
19. desember 2011.