Spurt og svarað

08. janúar 2006

Ráð til að þyngjast eftir barnsburð

Góðan daginn!

Ég eignaðist barn fyrir 2 mánuðum og frá þeim tíma hef ég verið að léttast meira en ég kæri mig um. Á meðgöngunni þyngdist ég eðlilega en þá borðaði ég mjög mikið af ávöxtum og grænmeti. Núna hef ég verið að reyna að borða fituríkari fæðu en það dugar ekki til. Strákurinn minn dafnar mjög vel en ég er hins vegar að hverfa! Ég hef reynt að lesa mig til um æskilega fæðu til að fá þær auka hitaeiningar sem nauðsynlegar eru meðan á brjóstagjöfinni stendur en ég finn aðeins ráð um hvernig hægt er að grennast eftir barnsburð. Ég vildi kanna hvort þið gætuð bent mér á einhvern næringarráðgjafa eða eitthvað efni varðandi þetta vandamál.

Kærar þakkir, Edda.

..........................................................................................

Sæl og blessuð Edda.

Forðalosunin í brjóstagjöfinni getur komið í svolitlum bylgjum þannig að þú þarft ekki alveg að fara að örvænta strax. Oftast er það hraðast fyrstu 3 mánuðina en svo hægir á. Það eru þó alltaf sumar konur sem „hrynja“ mjög hratt. Þú gætir reynt „Build up“ sem selt er í kjörbúðum og ávexti og grænmeti sem eru næringarrík s.s. banana og avókadó . Heimatilbúinn ís er kjörfæða þar sem í honum er mikið af eggjum og rjóma. Sem snakk eru hnetur heppilegastar eða súkkulaði. Þú átt að geta fengið góð ráð hjá hvaða næringarráðgjafa sem er. Ég get ekki bent þér á einhvern ákveðinn.

Með von um góða næringu,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.