Sár spöng og sár á geirvörtu eftir fæðingu

07.03.2005

Sæl og blessuð.

Mig langar til að spyrjast fyrir um tvennt:

  1. Það var klippt á spöngina í fæðingu og nú 9 dögum eftir hana er ég enn með verk og sviða á því svæði.  Sérstaklega þegar þvag rennur þangað, þá hoppa ég hæð mína af verkjum sem standa yfir í góðan tíma á eftir.  Ég reyni að vernda svæðið með að hafa eitthvað yfir því þegar ég pissa, en þetta virðist ekki ætla að lagast neitt. Einnig skola ég svæðið tvisvar sinnum á dag.
  2. Svo er það önnur geirvartan, það kom sár fljótlega á hana vegna þess að hann tók það vitlaust í fyrstu skiptin en tekur það rétt núna.  En sárið virðist ekki ætla að gróa, ég læt renna á vörtuna og ber Lansinoh á
    hana á milli gjafa,reyni að viðra um hana en hún virðist ekki lagast því hún fær náttúrulega svo litla hvíld.

Áttu einvherjar ráðleggingar fyrir mig varðandi þetta tvennt?  Ég bý úti á landi og myndi fara til kvensjúkdómafræðings ef ég væri fyrir sunnan. Held kannski að efsti saumurinn á spönginni sé mögulega farinn.

Með von um góð ráð, takk fyrir.

...........................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Varðandi spangarskurðinn þá getur verið alveg eðlilegt að vera með verk og sviða á því svæði 9 dögum eftir fæðingu en ef til vill eru þetta óeðlilega miklir verkir sem koma við þvaglát. Það getur dregið úr sviðanum ef þú getur skolað svæðið með vatni um leið og þú pissar. Þú getur þá reynt að pissa í baðinu eða sturtunni og skolað með sturtunni um leið. Ef þetta fer ekki að skána hjá þér þá ættir þú að biðja ljósmóður eða lækni að skoða þig.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
7. mars 2005.

Varðandi geirvörtuvandamálið þá finnst mér nauðsynlegt að fá góða skoðun á sári sem er búið að vera svona lengi. Þú segir að barnið grípi vörtuna rétt og þá á hún að gróa á 1-2 dögum. Mér er alveg sama þótt hún sé mest allan sólarhringinn upp í barninu. Hún þarf ekki neina hvíld. Ef hún er rétt upp í barninu þá á hún að gróa. Algengasta orsökin fyrir því að sár gróa ekki á geirvörtum (ef rétt er gripið) er bakteríusýking í sárinu. Hana þarf að greina og fá viðeigandi krem við henni. Ég er hrædd um að Lansinoh geti frekar tafið fyrir en hitt. Það eru líka fleir orsakir mögulegar þannig að ég mæli með því að þú fáir skoðun hjá lækni, ljósmóður eða hjúkrunarfræðingi.

Með ósk um að fljótt greiðist úr,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. mars 2005
.