Spurt og svarað

23. ágúst 2006

Sársauki við kynlíf

Ég vil byrja á því að þakka fyrir frábæran vef sem hefur reynst mér vel, bæði á meðgöngunni og núna með ungabarn.
Ég eignaðist mitt fyrsta barn fyrir tæpum 5 mánuðum. Í kringum 10. viku meðgöngunnar missti ég allan áhuga á kynlífi og sá áhugi hefur ekki enn komið tilbaka.  Þetta vandamál tekur svakalega á sambandið hjá mér og sambýlismanni mínum.  Hann finnur fyrir stanslausri höfnun og það særir mig að hreinlega vilja ekki stunda kynlíf með honum, og þá er ég að tala um allt kynlíf, það er eins og ég hafi enga kynlífshvöt yfir höfuð. Við höfum bara nokkrum sinnum reynt að hafa samfarir en enn þann dag í dag er það ótrúlega sárt, mér finnst eins og leggöngin séu öll að rifna upp! Þó svo að við förum mjög rólega í þetta og notum sleipiefni þá er þetta alveg óhemju sárt, skánar eftir smá stund en er samt alltaf vont. Er eðlilegt að eftir svona langan tíma sé enn vont að hafa samfarir?
Eftir fæðinguna, höfum við einu sinni náð að fara alla leið og ég fór að hágráta eftir á, því þá sá ég hvað það hefur vantað ótrúlega mikið í samband okkar í næstum því heilt ár. Þetta fer að verða leiðinlegur vítahringur, ég vil ekkert með kynlíf hafa - maðurinn minn finnur því fyrir stanslausri höfnum - ég VIL ekki þurfa að særa hann/hafna honum og "gef því stundum eftir", en hann vill ekki "neyða mig" til að stunda kynlíf.
Mig langar svo að vilja og geta stundað kynlíf.

 
Komdu sæl.
 
Vissulega er þetta leiðinlegt vandamál og nauðsynlegt að komast úr þessum vítahring sem þið eruð í.  Góðu fréttirnar eru þær að þið eruð á réttri leið.  Með því að tala saman, fara varlega og halda áfram að reyna þá kemur þetta með tímanum.  Því miður þurfa konur stundum að "læra" að lifa kynlífi upp á nýtt eftir fæðingu.  Það getur verið sárt fyrst en svo smá batnar það.  Það er eðlilegt að langa ekki mikið þegar þú veist að þú átt eftir að finna til en  hugsanlega þarftu að bíta á jaxlinn í nokkur skipti til að ástandið lagist.  Þegar sársaukinn minnkar kemur áhuginn aftur.
 
Hinsvegar eru nokkrar spurningar sem mig langar að spyrja þig. 
Ertu með barnið á brjósti?  Hormónabreytingar í brjóstagjöf geta orsakað mikinn þurrk í leggöngunum og sársauka við samfarir.
Þurfti mikið að sauma eftir fæðinguna?  Það er hugsanlegt að það hafi áhrif þó það sé svona langt um liðið.
Fórstu í eftirskoðun?  Ef ekki þá myndi ég ráðleggja þér að fara til læknis og bera þetta undir hann.
Fékkstu sýkingu í sárið eftir fæðingu sem getur orsakað að sárið grói seinna?
 
Með ósk um gott gengi.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðigur og ljósmóðir.
23.08.2006.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.