Spurt og svarað

10. mars 2008

Sársauki við samfarir

Sælar

Ég er búin að skoða svör við svipuðum spurningum á vefnum ykkar en langar þó að lýsa aðeins fyrir ykkur stöðunni hjá mér og vita hvað ég á að gera.

Þannig er að ég átti strákinn minn fyrir 6 mánuðum og fæðingin gekk mjög vel. Ég var fljót að jafna mig og hef ekki fundið fyrir neinum óþægindum af völdum fæðingarinnar lengi. Hins vegar er eins og það hafi verið slökkt á allri kynlífslöngun hjá mér og það er hrikalega vont þegar við maðurinn minn reynum að stunda kynlíf. Hann er orðinn verulega þreyttur á þessu ástandi og skilur ekki hvað veldur þessu. Ég hef ekkert verið að stressa mig yfir þessu þar sem ég hef hvort eð er ekki haft neinn áhuga á kynlífi og því notað það sem afsökun að ég finni svo mikið til. Hins vegar er þetta farið að hafa mikil áhrif á samband okkar svo ég vil reyna að finna eitthvað út úr þessu. Það er eins og litli strákurinn okkar taki alla mína orku og ég eigi ekkert eftir handa manninum mínum, sem er náttúrlega ekki gott fyrir sambandið. Getur verið einhver ástæða fyrir þessum sársauka svo löngu eftir fæðinguna? Við höfum prófað sleipiefni en það hefur lítið að segja varðandi sársaukann. Hafið þið einhver ráð handa mér????

 


Komdu sæl.

Ég vil ráðleggja þér að fara í skoðun til kvensjúkdómalæknis fyrst sársaukinn er svona mikill þó ekki sé nema til að fá staðfestingu á því að ekkert líkamlegt sé að.  Það er vissulega til í dæminu að eitthvað hafi farið úrskeiðis í saumaskap sem veldur sársauka og þarf jafnvel að laga. 

Þurrkur í leggöngum, sem getur verið vegna brjóstagjafar, getur valdið sársauka við samfarir en sleipiefni ætti þá að hjálpa eitthvað.  Sársauki getur líka verið sálrænn eins og þú segir, þetta er ágæt afsökun, og þá þarf að taka á því og breyta hugsunarhættinum.  Það er gott að fara hægt af stað og reyna annað áður en farið er útí samfarir.

Margar konur þekkja það að barnið uppfyllir allar þarfir þeirra og áhugi á kynlífi er lítill eða enginn jafnvel lengi eftir fæðingu.  Þreyta sem fylgir því að vera með lítið barn hjálpar ekki til og svo er það oft þannig að barnið vaknar þegar foreldrarnir ætla að eiga stund saman.  Það þarf því oft svolitla útsjónarsemi til að koma þessu inn í prógrammið aftur.  Nýjir tímar og nýjir staðir gætu hjálpað til.  Hugarfarið skiptir samt miklu máli og jákvæðni fyrir því að ætla að láta þetta ganga.  Það er líka mjög mikilvægt að fara hægt af stað og tala við hvort annað og útskýra væntingar sínar og þarfir. 

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
10. mars 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.