Spurt og svarað

06. febrúar 2006

Sársauki við samfarir og þvaglát

Sælar og takk kærlega fyrir fræðandi vef!!
Ég átti stúlku fyrir tæpum fjórum mánuðum og rifnaði aðeins, ekki meira en annars stigs rifu og það mest upp í leggöngin.  Síðan ég átti stelpuna höfum við skötuhjúiin aðeins getað sofið saman 3 sinnum, og er það einungis því að þakka að ég hef bara bitið á jaxlinn, því þetta er svo ofboðslega vont.  Núna hef ég einungis lesið um andlegar ástæður þess af hverju konur vilja ekki sofa hjá eftir fæðingu, eða að kynhvötin minnki, í
mínu tilviki minnkaði kynhvötin einungis eftir að við prufuðum nokkrum sinnum því að þetta er svo vont, og ég er að meina sársaukafullt.  Ég hef ekkert fundið neitt um ástæður þess af hverju manni getur verið illt, hvenær maður á að leita læknis, hversu lengi er maður að jafna sig þarna niðri o.s.frv.
Líka er oft vont þegar ég pissa, ekki sviði eins og þegar maður er með blöðrubólgu heldur verkur.  Ég fékk þvaglegg þegar ég var að fæða til að tæma blöðruna og rak hún hann svolítið fast í þvagrásina og þurfti annað tilhlaup til að koma honum upp, ég hef bara alltaf tengt þetta tvennt saman og alltaf beðið eftir því að þetta lagist, en allt kemur fyrir ekki.
Ég er bara eiginlega alveg orðin strand og er þetta farið að hafa mikil áhrif á sambandið mitt og mannsins míns.
kveðja
Skvísan

................................................
 
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Þú minnist ekkert á það hvort þú sért alveg búin að jafna þig eftir fæðinguna fyrir utan kynlífið.  Þá meina ég hvort þér finnist vont að sitja, geturðu setið á hjóli eða er allt í lagi nema í sambandi við kynlífið.  Staðreyndin er að konur eru mjög misfljótar að jafna sig, það sem tekur sumar nokkrar vikur tekur aðrar nokkra mánuði.  Brjóstagjöf getur líka haft áhrif því hormónabreytingar sem fylgja henni geta þurrkað leggöngin og gert samfarir óþægilegar.  Fyrstu skiptin með manninum þínum geta því verið erfið en svo smálagast það. Gott getur verið að nota sleipiefni til að auðvelda sér hlutina og finna bestu stellinguna.  Ef þú getur ekki hugsað þér að halda áfram að reyna vegna sársauka þá ráðlegg ég þér að fara til kvensjúkdómalæknis og fá skoðun til að vita hvort eitthvað er að.
 
Það er auðvitað ekki eðlilegt að finna fyrir verkjum við þvaglát svona löngu eftir fæðingu og ættir þú að leita til læknis vegna þess. 
 
Gangi þér vel
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
06.02.2006.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.