Spurt og svarað

06. desember 2006

Saumaskapur eftir fæðingu og kynlíf

Sælar ljósmæður. Er að velta fyrir mér hvort það sé þekkt að konur séu saumaðar of þröngt saman eftir fæðingu. Ég átti stelpu fyrir 5 mánuðum síðan og get enn ekki haft samfarir sársaukalaust. Mér dettur helst í hug að ég hafi verið saumuð of mikið saman... tilfinningin er allvega þannig. Hvað er þá gert í því ef sú er raunin? Eða er þetta kannski bara alveg eðlilegt? Þið megið endilega fræða mig um þetta og ráðleggja mér.

 


 

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Nei það er nú afar sjaldgæft að konur séu saumaðar of mikið.  Þó skyldi maður aldrei segja aldrei.  Ef kona hefur rifnað mikið og illa og erfitt er að sauma þá er til í dæminu að hún þurfi að gangast undir lýtaaðgerð til að laga það.  Konur sem rifna lítið eða miðlungsmikið ættu ekki að þurfa að hafa áhyggjur af of miklum saumaskap.  Þú minnist ekkert á hversu mikið þú hafir rifnað né hvort þú ert búin að fara í skoðun til kvensjúkdóma- og fæðingalæknis eftir fæðinguna.  Það sést strax við skoðun hvort allt er í lagi.

Á hinn bóginn þá er það alveg eðlilegt að konu finnist sem limurinn komist ekki inn í leggöngin fyrst eftir fæðingu.  Tilfinningin um að þetta svæði virki ekki sem skyldi er mjög sterk hjá mörgum konum og hræðsla og kvíði fyrir sársauka getur komið í veg fyrir að konur láti á þetta reyna.  Síðasta minning um kynfærin er jú ennþá svo sterk og var ekki sársaukalaus!  Leggöngin sjálf eru þannig að þau víkka út í samræmi við það sem um þau fer þannig að það er næstum ekki hægt að sauma þau of mikið, það er þá helst leggangaopið sjálft sem gæti verið vandamál en það getur þú nú líka séð sjálf í spegli og prófað að opna það með fingrunum.  Margar konur eru þurrar í leggöngunum meðan þær eru með börn á brjósti og það getur líka valdið sársauka þannig að það er um að gera að nota nógu mikið af sleipiefni.  Og svo er bara að horfa björtum augum á framtíðina og fara rólega af stað, þetta kemur með tímanum og æfingunni.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
06.12.2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.