Spurt og svarað

24. október 2008

Skokk eftir fæðingu

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég átti barn fyrir 4 vikum og það gekk allt rosalega vel. Það þurfti ekkert að sauma og ég var fljót að jafna mig. Mín spurning er: Hvenær er óhætt að fara út að skokka? Ég er að springa mig langar svo að byrja núna. Það er það besta sem ég geri. Finnst alveg nauðsynlegt fyrir sálina að komast út í skokktúrana mína. En ég heyrði að maður þyrfti að bíða með að fara út að skokka í 6 vikur eftir fæðingu því annars væri hætta á blöðru- eða legsigi. Er það satt? En nú skokka ég mjög rólega, er ekkert óhætt að byrja fyrr? Ég fer út að labba með vagninn á hverjum degi en það er ekki það sama, skokkið gefur mér svo mikið. Það er stund sem ég á alveg fyrir sjálfa mig.

Kær kveðja, Skokk-mamma


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Þú getur byrjað að skokka þegar þér finnst þú vera tilbúin til þess. Það er enginn ákveðinn tími sem konur þurfa að bíða þar til þær byrja að æfa aftur eftir barnsburð.  Ég myndi þó ráðleggja þér að fara hægt af stað og auka svo álagið hægt og rólega eins og þér finnst þú geta. 

Varðandi blöðru- og legsig þá ráðlegg ég þér að gera grindarbotnsæfingar til að fyrirbyggja það og ef þú skokkar rólega til að byrja með ættirðu ekki að þurfa að hafa áhyggjur á blöðru- og legsigi.

Gangi þér vel og njóttu þess að byrja aftur að skokka.

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
24. október 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.