Spurt og svarað

23. júní 2005

Slæm grindargliðnun

Sælar og takk fyrir frábæran og mjög gagnlegan vef!
Ég eignaðist barn fyrir rúmum 7 mánuðum og gekk sú meðganga ekkert alltof vel, ég fór tvivar af svað og endaði með að eiga 10 dögum fyrir áætlaðan tíma. Ég var, að mér fannst, mjög slæm af grindargliðnun þá.  Núna er ég komin um 23 vikur á leið með mitt annað barn og hef verið að vanda mig við að slappa af og reyna ekki mikið á mig. Ég er orðin það slæm í grindinni að oft get ég ekki staðið upprétt og stundun (frekar oft upp á síðkastið) þegar ég er að ganga þá fæ ég svo slæma verki í grindinni eins og allt sé að gliðna í tvennt og kemur svona vondur hrollur alveg upp í hnakka og ég þarf bara helst að fara á fjórar fætur af sársauka! Ég kvíði mjög fyrir framhaldinu, á þetta ekki bara eftir að versna? Er e-ð sem ég get gert til að gera þetta auðveldara fyrir sjálfri mér. Ég er orðin það slæm að ég á erfitt með að sinna barninu mínu, sem mér finnst mjög óþægileg tilfinning.
Eins langaði mig að spyrja ykkur af því að ég fór 2x á stað á seinustu meðgöngu og átti þarna aðeins fyrir tímann, hvort það séu miklar líkur á því að ég muni fæða þetta barn fyrir tímann einnig líka af því að það líður svo stutt á milli meðganganna??  Mér fannst ég byrja að finna fyrir samdráttum frekar snemma, ég fæ þá mjög oft og þó svo að ég sé í hvíld. Ég er bara frekar hrædd um að ég muni fæða fyrir tímann núna líka, og þá kannski of snemma...
Með fyrirfram þökk um von um að þið getið ráðlagt mér í þessu máli mínu:-)

----------------------------------------------------------

Komdu sæl
Það er leiðinlegt að heyra að þú sért strax orðin þetta slæm af grindargliðnuninni. 
Ég held að þú þyrftir að komast í samband við sjúkraþjálfara sem getur leiðbeint þér með athafnir daglegs lífs.  Best væri ef ljósmóðirin þín eða heimilslæknir geti gefið þér tilvísun til sjúkraþjálfara.  Mér þykir leitt að segja það en grindargliðnun batnar ekki fyrr en meðgöngunni líkur og að meira segja jafnvel ekki fyrr en eftir dálítinn tíma eftir fæðingu.  Það er ýmislegt sem þú getur gert til að auðvelda þér lífið.  Hér á síðunni getur þú lesið um grindarverki og mjóbaksverki undir dálknum um meðgöngukvilla.  Þar ættirðu að finna ýmis ráð sem geta nýst þér við daglegar athafnir. 
Það er mjög erfitt að meta það hvort miklar líkur séu á því að þú farir aftur svona snemma af stað eins og á síðustu meðgöngu.  Stundum eru einhverjar haldbærar skýringar fyrir því að börn fæðast fyrir tímann t.d. sýkingar, reykingar o.fl.  Ég hvet þig til að ræða þessar vangaveltur við ljósmóðurina þína og þá hvort ástæða sé til þess að þú komir jafnvel þéttar í mæðravernd vegna þinnar sögu.  Samdrættir geta byrjað snemma á meðgöngu, sérstaklega hjá fjölbyrjum en vandinn er að greina á milli hvort samdrættirnir séu að valda einhverjum breytingum á leghálsinum eða ekki.  Heilmikið hefur verið spurt um samdrætti hér á síðunni og ættir þú að finna svör um þá í eldri fyrirspurnum . Ef þú hefur áhyggjur af þessum samdráttum þá skaltu láta líta á þig.
Vonandi hjálpar þetta eitthvað
Með kveðju

Málfríður St. Þórðardóttir
Ljósmóðir/hjúkrunarfræðingur
23.06.2005

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.