Spurt og svarað

14. febrúar 2007

Streptókokkar og jónsmessurunni

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég var að velta fyrir mér nokkrum atriðum í sambandi við streptokokka í legi hjá móður. Málið er að ég átti strák fyrir rúmlega tveimur vikum síðan og fékk smá sviða við þvaglát tveimur dögum eftir að ég átti. Þvagið var sent í rannsókn og það greindust streptokokkar í þvaginu svo að það var skrifað upp á sýklalyf fyrir mig sem ég er að taka núna. Ég hinsvegar hef miklar áhyggjur af stráknum mínum þar  sem að ég var ekki á neinum sýklalyfjum í fæðingunni sem er víst það sem að á að koma í veg fyrir að krílin smitist. Ég er búin að tala við lækni í sambandi við þetta en mér er sagt að það séu mjög litlar líkur á að hann smitist út frá þessu og að það séu ekki gerðar fyrirbyggjandi aðgerðir á krílunum svona eftir fæðingu. Samt sem áður hef ég verið að lesa mér til á netinu og þar hef ég séð að krílín eigi á hættu á að veikjast alveg 4 vikum eftir að þau fæðast og svo er ég einnig að lesa einhverjar hryllingssögur um það að börn hafi veikst nokkrum vikum eftir fæðingu af heilahimnubólgu vegna þessa. Nú veit maður ekki alveg á hvað maður á að hlusta þar sem að mér finnst ég vera að fá svolítið misvísandi upplýsingar. Getið þið eitthvað frætt mig um þetta? Svo er reyndar annað. Ég hef líka fengið upplýsingar frá homopata í sambandi við þetta og hann ráðlagði að taka jónsmessurunna og að inntaka hans ætti bæði að hjálpa mér og barninu vegna þessarar streptokokkasýkingar. Á sem sagt að hjálpa barninu því að ég er með hann á brjósti og hann á að fá hjálpina gegnum brjóstamjólkina. Ég keypti lyfið en sé svo að það stendur  í fylgiseðli með því að þetta sé lyf gegn vægu þunglyndi en það stendur ekkert um að það hafi áhrif á þessa streptokokka. Einnig kemur þar fram að konur með barn á brjósti ættu ekki að taka lyfið og ég þori því auðvitað ekki að taka það inn. Hafið þið eitthvað heyrt um inntöku jónsmessurunna vegna svona streptokokkasýkingar?

Bestu kveðjur H.


Sælar!

Það sem ég þekki til - eins og læknirinn sagði þér - þá eru litlar líkur á sýkingu hjá börnum eftir þennan tíma frá fæðingu - það hefði þá komið í ljós fljótlega eftir fæðingu. Ég myndi ekki þora að taka inn jónsmessurunna eins og segir í leiðbeiningunum að konur með barn á brjósti ættu ekki að taka það inn. Frekar að fylgjast vel með barninu og ef einhver sýkingarmerki koma í ljós að fara þá strax með barnið til læknis en líkurnar eru litlar á sýkingu úr þessu.

Gangi ykkur vel.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. febrúar 2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.