Spurt og svarað

20. júní 2005

Svitna á nóttunni

Sælar kæru ljósmæður!

Mig langar að byrja á að þakka ykkur fyrir mjög gagnlegan og góðan vef. Ég hef mikið leitað mér upplýsinga hingað á meðgöngunni og nú eftir fæðingu. Ég eignaðist mitt annað barn fyrir tveimur vikum og alveg frá því þremur dögum eftir fæðingu hef ég svitnað mjög mikið á næturnar. Ég tengdi þetta í fyrstu við það að mjólkin væri að koma í brjóstin og hormónabreytingar en nú er brjóstagjöfin komin í góðan farveg en þessu virðist ekki ætla að linna. Að auki hef verið með hroll á kvöldin, svona eins og ég sé með hitavellu en ég er þó ekki með hita. Ég man eftir að hafa svitnað talsvert í nokkrar nætur eftir að ég átti fyrsta barnið mitt en ekkert í líkingu við það sem ég er að upplifa nú. Þetta minnir mig helst á frásögn móður minnar þegar hún var að ganga í gegnum breytingarskeiðið. Ég skipti a.m.k tvisvar um bol á hverri nóttu og þarf að viðra sæng og þvo rúmföt að morgni. Því langar mig að spyrja ykkur hvort þetta sé algengt og muni ganga yfir, hvort þetta sé tengt hormónabreytingum og brjóstagjöfinni eða hvort aðrar skýringar geti verið á þessu. Á ég að leita til læknis ef þetta hættir ekki eftir ákveðinn tíma?

Kveðja, mamma eins tveggja vikna.

....................................................................................

Sæl og blessuð mamma eins tveggja vikna!

 
Mér finnst þetta hljóma mjög eðlilega. Hormónabreytingarnar eftir fæðingu gefa mismikil einkenni hjá konum. Þú lýsir miklum einkennum en þau eru alls ekki óeðlileg svo stuttu eftir fæðingu. Það ætti hins vegar að smá draga úr þeim á næstu vikum. Ef þú ert ekki talsvert betri 3 mánuðum eftir fæðingu væri rétti tíminn til að hafa samband við lækni. Vonandi nýturðu samt brjóstagjafarinnar. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. júní 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.