Úthreinsun

04.08.2005
Hæ, hæ
Ég er að velta fyrir mér í sambandi við úthreinsunina, nú eru rúmar þrjár vikur síðan ég átti barn og enn er úthreinsunin rauð.  Er það eðlilegt?  Finn líka stundum til þegar ég pissa í þvagblöðrunni held ég.  Þegar barnið var svona viku gamalt kom þykkur blóðköggull í klósettið og þurti ég aðeins að rembast til að koma honum niður.  Kannski er þetta allt saman eðlilegt en það væri gott að fá svör.  Langar líka til að vita hvort sé í lagi að fara í bað þegar hreinsunin er orðin gulhvít.
 Kveðja og takk fyrir
Mamman með spurningarnar

 
.................................................
 
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Úthreinsunin getur verið rauð ennþá vegna þess að þessi blóðköggull þurfti að komast niður, það seinkar ferlinu.  Það getur líka verið að eitthvað meira sé eftir upp í leginu sem á eftir að skila sér.  Ef þú verður vör við vonda lykt eða þú færð hita ættir þú að hafa samband við Móttökudeild Kvennadeildar (ef þú ert í Reykjavík).  Verkir við þvaglát geta tengst þvagfærasýkingu og því ættir þú kannski að fara með þvagprufu á heilsugæslustöðina þína.
Þegar úthreinsunin er orðin gulhvít er í lagi að fara í bað.
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
04.08.2005.