Úthreinsun

24.11.2007

Ég átti barn fyrir 6 vikum og vildi spyrja hvort það væri eðlilegt að það væri ennþá fersk blæðing. Það kemur ekki mikið en blæðingin er samt sem áður fersk.

KveðjaKomdu sæl og takk fyrir að leita á ljósmóðir.is

Í nokkrar vikur eftir fæðinguna, yfirleitt 4-6 vikur, er legið að hreinsa sig af blóði, slími og vefjarestum, en það er líka sár í leginu eftir fylgjuna sem tekur tíma að gróa. Þessi úthreinsun kallast á erlendum málum lochia. Fyrstu dagana eftir fæðinguna er úthreinsunin rauðleit og líkist á margan hátt fremur miklum tíðarblæðingum. Í lok fyrstu viku eftir fæðingu breytist þessi útferð yfirleitt, verður minni og liturinn verður rauðbrúnn. Á næstu vikum breytist útferðin frá því að vera bleik yfir í það verða gulhvítleit og konan byrjar að skipta sjaldnar um bindi. Allar athafnir sem auka tæmingu legsins, eins og það að standa, hreyfa sig eða gefa brjóst geta aukið á magn útferðarinnar.

Þú talar um að úthreinsun hjá þér núna eftir 6 vikur sé enn þá mjög rauðleit, en að sama skapi sé hún ekki mikil. Ef þér líður vel, og ef þú ert ekki með hita eða einkenni um sýkingu, eins og illa lyktandi útferð, held ég að þetta sé alveg eðlilegt. Stundum tekur lengri tíma fyrir legið að jafna sig og gróa. Þá er líka stundum að konur byrji á “míni-blæðingum” eftir ca. 6vikur, sérstaklega ef þær hafa barnið ekki eingöngu á brjósti, en í þeim tilfellum þá lýsa konur því þannig að það sé eins og úthreinsun hafi hætt en byrji svo skyndilega aftur ca. 6 vikum eftir fæðinguna og sé þá eins og 1/3 af venjulegum blæðingum. Ef þér finnst þessi blæðing sem þú lýsir sé hins vegar að breytast og verða meiri ættir þú ekki að hika við að hafa samband við kvensjúkdómalækni og fara í eftirskoðun.

Vona að þér gangi vel,

bestu kveðjur,

Steinunn H.Blöndal
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
24.11.2007