Úthreinsun eftir keisara

22.06.2008

Hversu lengi er eðlilegt að það blæði eftir keisara? Þannig er að ég fór í keisara fyrir 4 vikum og það er enn að blæða hjá mér ekki mikið en samt alltaf smá. Fyrir u.þ.b. viku fann ég að það kom svona blóðkökkur þegar ég var að pissa. Getur verið að það sé eitthvað að? Aðgerðin gekk mjög vel. Ég var komin á fætur daginn eftir og hef ekki fundið til í skurðinum og er alveg hress að öllu leyti. Var reyndar á miklu flandri vikuna á eftir aðgerð því annar prinsinn minn þurfti að vera á vöku og því vorum við mikið á ferðinni á milli heimilis og vöku. Getur það lengt úthreinsun?

Með bestu kveðju.


Sæl!

Það er eðlilegt að hreinsunin vari í allt að 8 vikur. Þessi blóðkökkur er hálfstorknað blóð sem skilar sér svo út, þannig kögglar eiga ekki að vera daglegt brauð en eðlilegt að einn og einn láti sjá sig. Úthreinsunin verður smám saman ljósari að lit og hættir svo alveg. Misjafnt er frá konu til konu hvað þetta tekur langan tíma. Hins vegar ef blæðingar verða miklar á ný eða kviðverkir og vond lykt fylgir útferðinni, getur verið um sýkingarmerki að ræða og ljóst að heimsækja verður lækni ef svo er. Flandur ætti ekki að lengja tímann en ef þú þarft ekki að flandrast núna er gott að slaka vel á og njóta barnanna.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. júní 2008.