Úthreinsun og túrtappar

09.09.2008

Hæ, hæ!

Mig langar endilega að fá að vita hvort sé í lagi að nota túrtappa á meðan á úthreinsun stendur? Úthreinsunin er búin að vera í 5 vikur hjá mér og er orðin svona brún/bleik.  Ég er orðin frekar leið á að nota bindi þar sem kemur svo lítið í það.

Með von um svör.

Kveðja Fífí.


Sæl Fífí!

Ekki er mælt með notkun túrtappa fyrr en úthreinsun er alveg lokið. Ástæðan fyrir því er að bakteríur hafa greiðari aðgang að fæðingarveginum á meðan hreinsunin gengur yfir. Þetta tímabil tekur að jafnaði um 6 vikur þannig að þú þarft líklega ekki að bíða lengi.

Með kveðju,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. september 2008.