Úthreinsun, vond lykt

28.05.2005

Sæl og blessuð,

Ég átti barn fyrir 2 vikum og allt gekk mjög vel, rifnaði varla, bara tekin 2 til 3 spor og þetta hefur gengið ágætlega. Blæðingarnar hafa minnkað mjög mikið og smá brún útferð er tekin við, mjög lítil, en mér finnst svolítið vond lykt af henni. Svo finn ég svo mikinn þrýsting stundum við þvagrásina (þar var sett eitt spor) Vildi bara athuga hvort ég neyðist til að láta lækni kíkja á mig eða hvort þetta sé alveg eðlilegt.  Hef ekki verið með neina kviðverki með þessu.

Kær kveðja, HH.

........................................................................


Komdu sæl HH og takk fyrir að leita til okkar!

Til hamingju með barnið!  Ég sé, að það eru 11 dagar síðan þú sendir okkur þessa fyrirspurn og ef til vill ertu búin að fá lausn þinna mála. Það hefur verið eðlilegur gangur á úthreinsuninni hjá þér eftir lýsingunni að dæma nema hvað það á ekki að vera vond lykt af útferðinni. Hafi lyktin ekki breyst frá því sem var, er best að láta lækni líta á sig til að kanna hvort um sé að ræða sýkingu. Ef þú ert ekki búin að láta skoða þig nú þegar, ráðlegg ég þér að gera það. Þú getur annað hvort leitað til þíns heimilislæknis, kvensjúkdómalæknis eða til móttökudeildar Kvennadeildar LSH ef þú er búsett á höfuðborgarsvæðinu.

Gangi þér vel,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. maí 2005.