Verkir 5 mánuðum eftir fæðingu

12.12.2011

Sælar, takk fyrir flottan vef!

Ég á 5 mánaða gamlan son og finn enn verulega til í mjöðmum og móðurlífi. Fæðinging gekk ágætlega en var langdregin og rembingurinn svolítið erfiður. Nær alla meðgönguna fann ég til togverkja, þá aðallega í nára og síðum. Mér þótti vont að reyna mikið á mig og fór mér því hægt en kyrrstæða gerði mér heldur ekki gott svo ég reyndi að fara meðalveg, sem gekk ágætlega. Ég svaf alltaf með snúningslak sem hjálpaði heilmikið. Ég las að konur losna ekki við togverki strax eftir fæðingu en 5 mánuðir... Mig verkjar við að fara í gönguferð og stundum haltra í sólarhring á eftir, stundum smellur í mjöðminni og verkirnir trufla svefn. Ég er máttlítil hægra megin og ræð ekki sérlega vel við að t.d. standa á öðrum fæti (hægri). Einnig finn ég eymsli í móðurlífinu eða neðri maganum. Ég hef verið með smá blæðingar af og til frá fæðingu. Ég hef verið að gera léttar æfingar hér heima og að gera t.d. kviðæfingar er hreinlega sárt. Er þetta í lagi eða ætti ég að láta athuga þetta?

Með fyrirfram þökkum og kveðju.


Komdu sæl.

Það er ástæða til að láta athuga þetta nánar og jafnvel tala við sjúkraþjálfara sem getur hjálpað. 

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
12. desember 2011.