Spurt og svarað

06. júní 2012

Verkir í ristli eftir fæðingu

Ég hef verið með verki í ristlinum eftir fæðingu (fæddi fyrir 2 vikum). Þetta lýsir sér þannig að ég er aum hægra megin í kviðnum og fæ mikla stingi fyrir ofan lífbeinið og finn sérstaklega fyrir þessu þegar ristillinn virðist vera fullur. Þetta getur orðið alveg ógeðslega vont. Eins fæ ég mikla stingi hægra megin í kviðinn ef ég sef lengi á hægri hliðinni, þessu fann ég líka fyrir á meðgöngunni og þá gat ég varla velt mér yfir á bakið vegna sársauka. Ég finn fyrir eymslum þegar ég þreifa aðeins til hægri, beint út frá lífbeininu. Þetta lagast svo þegar ég næ að losa hægðir. Ég var með harðlífi á meðgöngunni og hef verið með eftir fæðinguna en það er að lagast. Tek sorbitol og magnesíum og reyni að borða mikið af trefjum/grænmeti. Eins finn ég stingi ofan við lífbeinið þegar ég pissa en það er ekki alltaf. Ég er búin að fara til heimilislæknis sem þreifaði kviðinn og tók þvagprufu sem var í lagi. Reyndar var ég ekki farin að tengja þetta við ristilinn þá! Ég fékk gyllinæð eftir fæðinguna og hef verið með stíla við því. Þessir verkir eru semsagt stingir fyrir ofan lífbein og verkur til hægri í kviðinn. Er þetta eitthvað sem ég á að láta athuga frekar eða geta verið svona mikil eymsli eftir fæðingu? Með von um skjót svör!

Gudda
Sæl Gudda!

Algengustu ástæður kviðverkja eftir fæðingu eru hægðatregða, þvagfærasýking og sýking í legi. Þú virðist vera að gera rétt með að halda hægðum mjúkum og búið er að útiloka þvagfærasýkingu og sýkingu í legi.
Á meðgöngu verður mikið þan á kviðnum og líffæri kviðarholsins víkja til hliðar og upp þegar legið stækkar, margar konur verða aumar og finna jafnvel mikið til í kviðnum á meðgöngu og í einhvern tíma eftir fæðingu.
Af lýsingunni þinni að dæma virðist þetta vera saklaust og líklegast tengt ristlinum. Gagnlegt getur verið að drekka vel af vökva og taka parasetamol við verkjum.
Ef verkirnir minnka ekki og ef þú færð hita yfir 38°c ráðlegg ég þér að leita til læknis.


Með kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
6. júní 2012

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.